139. löggjafarþing — 135. fundur,  30. maí 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[18:45]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég aðgætti það, þegar þessi umræða hófst, hversu margir stjórnarliðar væru á mælendaskrá. Ég hef tekið eftir því að þeim hefur ekki fjölgað, eftir því sem umræðunni hefur undið fram, eins og maður hefði getað ímyndað sér, að menn hefðu bætt sér á mælendaskrána. Nei, þeim hefur fækkað. Þeir taka sig út af mælendaskránni. Þeir kjósa að ræða ekki sjávarútvegsmálin. Þeir hafa sjálfir verið að segja að þetta sé eitt af mikilvægustu málunum sem ríkisstjórnin hefur á sinni könnu, en áhugi þeirra og sannfæring fyrir málinu er ekki meiri en það að varla nokkur einasti þeirra treystir sér til að ræða málið nema í einnar mínútu andsvari. Við höfum tekið eftir því að þegar stjórnarandstæðingar hafa tekið til máls í andsvörunum þá er það þannig að þeir hafa eina mínútu til þess. Finnst þeim þetta þá svo ómerkileg mál, svo einföld mál, svo léttvæg mál, að ein mínúta í andsvari dugi til að koma sjónarmiðum þeirra á framfæri?

Umræður eins og þessar hafa tiltekinn tilgang sem er sá að við skiptumst á skoðunum og fram komi mismunandi sjónarmið. Við verðum að lúta því að takast á um þessi mál, hvort sem við erum í stjórn eða stjórnarandstöðu. (Forseti hringir.) Fjarvistir stjórnarliða í þessu máli vekja athygli mína. Ástæðan er augljós: Þeim (Forseti hringir.) lýst ekkert á frumvarpið frekar en okkur hinum. (Sjútvrh.: Hvað er þetta? Ég stend hér og tek alla umræðuna.)