139. löggjafarþing — 135. fundur,  30. maí 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[18:47]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Það væri nú annaðhvort að hæstv. ráðherra væri í salnum og tæki aðeins á stjórnarandstöðunni þegar verið er að fara yfir þetta frumvarp. En það er vitanlega mjög sérkennilegt að þeir sem eru æstir í þessa kvöldfundi skuli ekki vera hér til að hlusta á rökin í málinu. Ég held að forseti ætti að koma þeim skilaboðum til þingflokksformanna stjórnarflokkanna að þeir geri ágætum þingmönnum sínum viðvart um að umræðan sé í gangi. Ég er ekki viss hvort stjórnarliðar vita hreinlega að verið er að ræða sjávarútvegsmál. Ég tel mikilvægt að þeim verði gerð grein fyrir því að þessi umræða eigi sér stað þannig að þeir geti lagt okkur lið í umræðunni.

Þetta er eitt mesta áherslumál ríkisstjórnarinnar og sérstaklega hæstv. forsætisráðherra. Ég spyr: Hvar er hæstv. forsætisráðherra? Þegar loksins er verið að ræða sjávarútvegsmálin sem hún talar um í hverri einustu ræðu. Í hverri einustu ræðu sem ráðherrann heldur ræðir hún sjávarútvegsmál en lætur ekki svo lítið að vera í þingsal og taka þátt í þeim umræðum sem hún hefur svo oft óskað eftir að fari fram.