139. löggjafarþing — 135. fundur,  30. maí 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[18:57]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að taka undir þá gagnrýni sem kom fram í ræðum hv. þingmanna áðan um viðveru ráðherra og þingmanna. Það vekur sérstaka athygli að við umræðu þessa mikilvæga máls, sem lengi er búið að bíða eftir að komi á dagskrá þingsins, skuli ekki einu sinni nefndarmenn í sjávarútvegsnefnd vera viðstaddir. Einn þingmaður frá Vinstri grænum, formaður sjávarútvegsnefndar, ætlar að tala í þessari umræðu. Varaformaður nefndarinnar, hv. þm. Ólína Þorvarðardóttir, er ekki á mælendaskrá og það sama á við um aðra í sjávarútvegsnefnd.

Það vekur furðu að við skulum ekki geta átt heilbrigð skoðanaskipti. Það er svo sem í takt við annað hjá hæstv. ríkisstjórn og sérstaklega hæstv. forsætisráðherra að vilja hafa málin í ágreiningi í fjölmiðlum og senda okkur skeyti sem við getum síðan ekki átt málefnalega umræðu um við hana í þinginu.

Við ræðum um grundvallarbreytingar á fiskveiðistjórnarkerfi okkar. Það er ágætt að rifja aðeins upp hvernig staðan hefur verið í sjávarútvegi í gegnum árin. Árin fyrir 1984, áður en við settum kvótakerfið á, voru mjög slæm. Þá var viðvarandi tap í sjávarútvegi og greinilegt að við gengum allt of mikið á fiskstofna og grípa varð til aðgerða. Komið var á fiskveiðistjórnarkerfi með ákveðnum markmiðum, fyrst og fremst um hagræðingu, fækkun í fiskiskipaflotanum og sameiningu fyrirtækja. Það hefur tekist mjög vel, virðulegi forseti. Annað verður ekki sagt. Það vakti í sjálfu sér enga kátína meðal sjómanna árið 1984 að vinnutími þeirra skyldi verða skertur og atvinnumöguleikar þegar þeir fengu strax frá viðmiðunarárunum um 20% skerðingu. En aðgerðin gekk vel. Fiskiskipum hefur t.d. fækkað frá árinu 1990 úr 2.552 í 1.123 árið 2008. Fyrirtækjum hefur fækkað mikið með sameiningu og sölu.

Framsalið sem ríkisstjórn Alþýðubandalags, Alþýðuflokks og Framsóknarflokks kom á árið 1990 var umdeilt og einn þáttur í þessu hagræðingarferli. Fram hjá því verður ekki horft að það hefur skilað miklum árangri enda má segja að markmiðin með því hafi náðst eins og þau voru kynnt í ræðu hæstv. núverandi fjármálaráðherra þegar hann tjáði sig um þessi mál á þeim tíma. Þetta hefur leitt til þess, virðulegi forseti, að við rekum nú hagkvæmasta sjávarútveg í heimi. Það hlýtur að segja okkur að þegar við hugum að breytingum á því kerfi þurfum við að vanda til verka. Við erum óyggjandi með best rekna sjávarútveg í heimi og þjóðir um allan heim horfa til okkar og vilja feta í fótspor okkar. Við verðum að vanda okkur við að leita þjóðarsáttar um hvernig breytingar í þessu kerfi mega viðhalda þeirri hagkvæmni og þeim arði sem við höfum af þessari grein.

Þær hugmyndir sem núna eru uppi koma verst við þá sem eru nýliðar í greininni, þá sem hafa undanfarin fimm ár haslað sér völl í sjávarútvegi og byrjuðu á árunum fyrir hrun. Sem dæmi um það er fjöldi fyrirtækja í þeim hópi í krókaaflamarksbátunum, í smábátaútgerð, í litlum og meðalstórum fjölskyldufyrirtækjum um land allt. Á fiskveiðiárinu 2005/2006 keyptu 127 krókaaflamarksbátar kvóta. 100 keyptu fiskveiðiárið 2006/2007 og 62 fiskveiðiárið 2007/2008. Menn eru skuldsettir út af þessum kaupum og á mörgum samningunum var blekið vart þornað þegar þetta fólk fékk á sig mestu skerðinguna haustið 2007, það sat uppi með skuldirnar af fjárfestingunni og hafði ekkert gert af sér annað en að spila eftir þeim leikreglum sem hæstvirtir núverandi forsætisráðherra og fjármálaráðherra áttu stóran þátt í að setja árið 1990. Það sat eftir með skuldirnar þegar skerðingin kom árið 2007 og fór niður í 130 þús. tonn.

Nú sjáum við að aflamarkið getur farið upp undir 200 þús. tonn í þorski. Þá ætlum við með hugmyndum um aukna strandveiðihlutdeild í þessu frumvarpi og þeim hugmyndum sem liggja fyrir í stærra frumvarpinu að hirða af þessu fólki aukninguna, skilja það eftir með skuldirnar, leyfa því að borga þær en gefa því ekki aflann sem það keypti. Það er ekkert réttlæti í þessu landi ef þetta fær staðist löggjöf okkar. Ef hægt er að framkvæma slíka eignaupptöku gagnvart þessu fólki sem hundruðum saman um allt land rekur þau litlu og meðalstóru fyrirtæki sem þetta kemur verst við — ef hægt að koma svona fram við það er ekkert réttlæti til í okkar landi.

Meðaltalsafli á undanförnum tíu árum hefur verið um eða yfir 200 þús. tonn af þorski og aukninguna á að miða við það. Ef við ætlum að fara að kroppa í aukninguna getum við ekki kroppað í hana fyrr en þeim sársaukamörkum er náð þannig að fólk sé búið að fá til baka það sem það keypti og hefur með réttu nýtingarheimildir á, að öðrum kosti verður ríkisstjórnin og hæstv. sjávarútvegsráðherra að koma fram með hugmyndir um hvernig eigi að bæta þessu fólki og þessum fyrirtækjum skaðann.

Hagkvæmni strandveiða, sem svolítið er komið inn á í þessu frumvarpi, er alveg eins og lýst var í upphafi. Spá okkar sem gagnrýndum þá leið hefur gengið eftir. Meðferð afla er lakari á þessum bátum og hefur haft áhrif á markaði erlendis. Verðið sem þessir bátar fá og alls staðar á markaðnum þegar þeir koma inn á hann er miklu lægra. Þannig lækkaði kílóverð á þorski á mörkuðum úr 370 kr. í 270 kr. fyrstu dagana í maí á meðan strandveiðarnar voru sem mestar fyrir vestan land. Þetta munum við sjá aftur á miðvikudaginn. Ég held að í þessari viku og í kringum helgina hafi það verið um 390–400 kr. Aftur mun verðið hrynja. Til hagsbóta fyrir þjóðarbúið? Til hagsbóta fyrir sjómenn? Nei, til hagsbóta fyrir kaupendur í útlöndum. Það eru þeir sem græða, hagnaðurinn er fluttur úr landi. Við það er auðvitað ekki unandi að fólk úr ríkisstjórnarflokkunum skuli réttlæta þetta kerfi og horfa algerlega fram hjá þessum augljósu meinbugum.

Hverjar eru kröfurnar í dag hjá þeim sem stunda þessar veiðar? Þær eru nákvæmlega þær sem við sögðum að þær mundu verða. Nú vilja menn fá ákveðinn dagafjölda í mánuði til að geta sótt og menn vilja fá aukinn afla inn í kerfið — nákvæmlega það sem við vildum meina — eða fá bundinn kvóta á bát. Þetta eru kröfurnar og þær eru eðlilegar vegna þess að kerfið er svo óhagkvæmt eins og það er. Þetta er svo vitlaust að það nær ekki nokkru tali. Það að halda því fram að þetta stuðli að nýliðun í kerfinu er náttúrlega bara sögufölsun. Þetta stuðlar ekki að neinni nýliðun og það veit hæstv. sjávarútvegsráðherra. Hann veit jafn vel og við hin hverjir stunda þessar veiðar. Þetta eru hobbíveiðar upp til hópa og bátar sem fara í þetta hluta af tímabilinu eru í öðrum veiðum allt árið. Þetta hefur ekkert með nýliðun að gera. Þetta hafði í för með sér offjárfestingu á þessum vettvangi. Í þetta var eytt allt of miklum peningum og margir hverjir sitja eftir með sárt ennið út af skuldum sem þeir stofnuðu til við kaup á bátum.

Ýjað hefur verið að því í umræðunni að Sjálfstæðisflokkurinn vilji ekki breytingar á stjórnkerfi sjávarútvegsins. Það er rangt. Við tókum þátt í þeirri sáttanefnd sem hæstv. sjávarútvegsráðherra skipaði og við gerðum það af heilum hug. Hv. þm. Einar K. Guðfinnsson stýrði þar mikilvægri undirnefnd og átti gott samstarf við alla sem þar voru innan borðs. Samfélagið er í ótrúlegri stöðu þegar slíkur ágreiningur er um þetta mál sem raun ber vitni, ekki er bara ágreiningur meðal hagsmunasamtaka sjómanna, útgerðarmanna og byggðarlaga gagnvart ríkisstjórninni eða milli stjórnarandstöðunnar og stjórnarflokkanna heldur er bullandi ágreiningur um málið á stjórnarheimilinu. Það er orðin frekar undantekning en regla ef menn koma sér saman um nokkurn skapaðan hlut á þeim bæ.

Í sáttanefndinni voru skoðaðar tvær leiðir. Önnur var innköllunarleiðin eða hin svokallaða fyrningarleið sem var kynnt sem byltingarkennd leið fyrir kosningar. Ég var einn af þeim sem fögnuðu þeirri hugmynd vegna þess að hún var augljóslega ófær og var því flautuð af, en maður vonaðist til þess að það kæmi vitinu fyrir fólk, sérstaklega í Samfylkingunni, sem talar alltaf af áberandi vanþekkingu um sjávarútvegsmál. Maður hélt kannski að eftir að búið var að gera fræðilega úttekt á svokallaðri fyrningarleið kæmi það vitinu fyrir fólk og það sæi það sem sýnt hafði verið fram á, að sú leið hefði sett sjávarútveginn í þrot með hörmulegum afleiðingum fyrir bankakerfið, og menn kæmu þá að samningaborðinu og næðu með málefnalegri umræðu vitlegri niðurstöðu. Nei, það var ekki hægt. Um leið og nefndin hafði lokið störfum voru málin komin til ríkisstjórnarflokkanna og í uppnám með það sama.

Samkomulag var um að farin skyldi svokölluð auðlinda- og samningaleið. Það er fróðlegt að fletta aðeins í skýrslu sáttanefndarinnar sem setti sér markmið og komst að niðurstöðu. Markmiðin voru að festa í sessi varanlegt eignarhald þjóðarinnar yfir auðlindum hafsins. Er einhver ágreiningur um það? Tryggja þjóðhagslega hagkvæmni af nýtingu fiskstofna við landið. Er það ekki göfugt markmið? Erum við að ná því eins og ég hef lýst? Erum við að tryggja að þjóðin njóti arðs af auðlindinni? Erum við ekki öll sammála um að skoða þurfi auðlindagjald? Var það ekki það sem var lagt upp með í þeim sáttanefndum sem áður hafa verið skipaðar og endurskoðunarnefndum á undanförnum áratug af Sjálfstæðisflokknum og Framsóknarflokknum þegar menn leituðu sátta og stöðugt var snúið út úr fyrir þeim af hálfu þeirra sem nú eru í ríkisstjórn? Stefna átti að því að stuðla að sem mestri hagkvæmni og eyða óvissu um afkomuhorfur, rekstrarskilyrði, fjárfestingargetu og markaði með afurðir. Þetta er allt í uppnámi. Þetta voru markmiðin sem voru sett með sáttaleiðinni. Það er ekki verið að nálgast þau. Það átti að gæta að atvinnu og byggðamálum. Það er mjög til efs að þær leiðir sem eru boðaðar verði til þess. Það átti að vinna í sem mestri sátt við alla aðila. Er það niðurstaðan?

Meiri hluti starfshópsins telur rétt að gerðir verði samningar um nýtingu aflaheimilda. Það er það sem samningarnir áttu að vera um. Það átti eftir að taka til tímalengd af framlengingu samninga, gjaldtöku, aðilaskipti og ráðstöfun aflahlutdeilda. Þetta voru útfærsluatriðin sem voru eftir. Menn voru komnir í ákveðna vegferð, þeir töluðu í sáttatón og voru allir í sáttahug við samningaborðið. Þetta var vegferðin sem við ætluðum í. En ríkisstjórnarflokkarnir kusu að rífa málin úr höndum þeirra sem voru í sáttahug og boða til óeiningar um málin aftur. Það er með ólíkindum að það skuli verða niðurstaðan eftir alla þessa vinnu í heilt ár, eftir öll göfugu markmiðin og þessa góðu niðurstöðu að slíkur ágreiningur skuli þurfa að vera um málið. Ég kenni fyrst og fremst algeru skilnings- og þekkingarleysi ákveðinna aðila sem fjalla um þessi mál um, svo skömm er að.

Það sem er vandamál okkar í dag er ómálefnaleg umræða um þessi mál. Við getum ekki einu sinni átt málefnalega umræðu núna við forustumenn ríkisstjórnarinnar, eins og hæstv. forsætisráðherra sem stöðugt sendir stjórnarandstöðunni tóninn í fjölmiðlum og á fundum þar sem hún er stödd og í viðtölum við fréttamenn. Hún væri maður að meiri ef hún kæmi hingað og talaði við okkur augliti til auglitis um þessi mál og ætti við okkur málefnalega umræðu og hlustaði á þá gagnrýni sem við höfum fram að færa og þær tillögur sem við viljum fara eftir.

Málið er grafalvarlegt. Hér eru lögð fram gersamlega vanbúin mál, virðulegi forseti. Farin er alveg sama leið og Samfylkingin fór fyrir síðustu kosningar þegar hún setti fram hugmyndir um svokallaða fyrningarleið og lofaði kjósendum öllu fögru. (Gripið fram í: Er hún horfin frá því?) Hún er horfin frá því vegna þess að sú leið fékk falleinkunn um leið og hún var skoðuð af fræðimönnum sem vit og þekkingu hafa á málunum. Það nákvæmlega sama er að gerast núna. Hér koma fram algerlega vanbúin mál og m.a. á algerlega eftir að gera hagfræðilegar úttektir á þeim. Hvaða áhrif hafa þessar breytingartillögur á þjóðarhag? Munu þær skila meiri arði til þjóðarinnar? Ég segi nei. Ég er sannfærður um að svo er ekki. Það er engin tilviljun, virðulegi forseti, að ég hef ekki heyrt nokkurn mann, ekki einu sinni stjórnarþingmann, mæla þessum tillögum bót; (Forseti hringir.) svo einfalt er það. Það hefur enginn þingmaður stjórnarflokkanna sagt: Ég er mjög hrifinn af þessum frumvörpum. Miklu frekar hafa menn tjáð sig og komið með (Forseti hringir.) alvarlegar athugasemdir. Það sama á við um alla hagsmunaaðila sem tjá sig um þessi mál og sveitarstjórnarmenn (Forseti hringir.) um land allt. (Gripið fram í.)