139. löggjafarþing — 135. fundur,  30. maí 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[19:33]
Horfa

Jón Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta er eiginlega ekki svaravert. Það er ómálefnalegt að gera það að mínum tillögum að veiðigjaldið eigi að vera miklu hærra þegar ég varpaði fram spurningu um af hverju hv. þingmaður hefði ekki lagt til að það yrði hærra. Í því fólust engar hugmyndir frá mér um að það ætti að vera miklu hærra, enda sagðist ég þurfa gögn til grundvallar ólíkt þeirri veðurfræði sem stjórnarflokkarnir stunda á þessum vettvangi.

Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn voru í löngu samstarfi og unnu mjög margar sáttatillögur í fiskveiðistjórnarmálum, margar byggðatengdar tillögur eins og línuívilnun, byggðakvóta og allt það sem við höfum sett inn og reynt að mæta. En gagnrýnin hefur jafnan verið mjög ómálefnaleg. Þegar hv. þingmaður vitnar til þess að Sjálfstæðisflokkurinn hafi verið með málið síðastliðin 27 ár gleymir hann að greina frá því að það var hans eigin flokkur sem kom á framsalinu sem er það umdeildasta í þessu máli, þ.e. þegar einhverjir (Forseti hringir.) seldu sig út úr greininni og fóru burt með mikinn hagnað. Um það stendur ágreiningurinn. En það er orðið allt of seint að vinda ofan af því. Það var ákvörðun sem (Forseti hringir.) vinstri flokkarnir sem nú eru í ríkisstjórn tóku og kerfið sem þeir komu á en viðurkenna ekki (Forseti hringir.) og kannast ekki við krógann í dag.