139. löggjafarþing — 135. fundur,  30. maí 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[22:20]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vildi byrja á að þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Hann sagði að það væri mjög mikilvægt að skapa sem víðtækasta sátt. Því langar mig að spyrja hann út í þá grein frumvarpsins sem fjallar um hvernig skipta á auðlindagjaldinu, þ.e. því er í fyrsta lagi skipt upp til helminga milli allra landshluta og síðan er það misjafnt eftir sveitarfélögum hvað menn fá. Því vil ég spyrja hv. þingmann: Telur hv. þingmaður ekki að það þurfi þá að skoða það betur að taka réttlátt auðlindagjald af öllum auðlindum landsins og greiða það í auðlindasjóð, eins og hv. þingmaður kom inn á í máli sínu? Þá mundi úthlutunin vera jöfn til allra, eða réttara sagt í ríkissjóð, og sátt væri náð. Ef við skiptum þessu litla þjóðfélagi upp í jafnmörg ríki og sveitarfélögin eru náum við ekki sátt um það. Þá munum við alltaf deila um það hvernig við eigum að skipta (Forseti hringir.) því gjaldi sem tekið er.