139. löggjafarþing — 135. fundur,  30. maí 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[22:34]
Horfa

Jón Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er auðvitað svo að þegar víðtæk sátt er meðal þingflokka er mjög líklegt að víðtæk sátt verði meðal þjóðarinnar um svo veigamikil mál eins og sjávarútvegsmálin eru. Þannig var það 1990 og maður gerði sér vonir um að þannig yrði það núna eftir vinnu sáttanefndar sem lauk störfum hér síðastliðið haust. En málið var ekki fyrr komið út úr þeirri vinnu en það var orðið í bullandi ágreiningi innan stjórnarflokkanna sem endurspeglast síðan í þeim ónýtu frumvörpum sem eru lögð hér fyrir okkur í miklum ágreiningi. Og ég tek undir það sem hv. þm. Kristján L. Möller sagði áðan að það er alveg ótrúlegt að við skulum vera í þessari stöðu eftir þá miklu vinnu og þá sátt sem náðist þar innan dyra.

Þingmaðurinn nefndi að þetta yrði ekki afturvirkt. Mig langar þá til að spyrja hann: Það er fullt af útgerðum í landinu, litlum og meðalstórum útgerðum, fjölskyldufyrirtækjum, sem á síðustu árum hafa keypt kvóta. Nú er verið að auka aflaheimildir bæði samkvæmt væntanlegum (Forseti hringir.) niðurstöðum vísindanefnda og Hafrannsóknastofnunar og í strandveiðum hér. Sá kvóti á ekki að fara til þeirra útgerða sem keyptu á sínum tíma, (Forseti hringir.) heldur á að taka hann frá þeim og skilja þá eftir með skuldirnar. Finnst honum það réttlætanlegt?