139. löggjafarþing — 135. fundur,  30. maí 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[22:40]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S):

Forseti. Sú umræða um fiskveiðistjórnarkerfið sem þingmönnum hefur verið boðið upp á hér í kvöld hefur á margan hátt verið nokkuð klassísk. Oftar en ekki dettum við inn á þætti sem í rauninni má greina umræðuna eftir, þ.e. þegar þingmenn koma inn á einstök atriði kemur það venjulega upp úr dúrnum að þau snerta ákveðna þrengri hagsmuni sem falla með einhverjum hætti að sviði þeirra þingmanna sem um þau fjalla hverju sinni. Ekki er ég að segja að þeim þingmönnum sé frekast í huga að halda fram til hins ýtrasta sérstökum sjónarmiðum sínum, að þeir séu í einhverri hagsmunagæslu, heldur tel ég þetta miklu fremur stafa af því að þeir þekki betur til einstakra þátta en annarra í tilteknu frumvarpi og því sem hér liggur fyrir og vilji því ræða þá sérstaklega.

Mér þykir raunar mjög merkilegt að við séum að ræða mál sjávarútvegsráðherra á þskj. 1474 hér í kvöld þegar við ræðum jafnhliða tvö önnur þingmál sem ekki er búið að taka á dagskrá, annars vegar frumvarp frá Hreyfingunni sem lýtur að sömu málum og svo það frumvarp sem hæstv. sjávarútvegsráðherra er ætlað að mæla fyrir síðar, þykkara frumvarp en það þunna. Þessu er öllu hrært saman, sérstaklega málum sjávarútvegsráðherrans. Umræðan dregur nokkurn dám af því. Ég ætla að leyfa mér að fara vítt um völl í ræðu minni vegna þess að illa verður skilið á milli umræðunnar um það frumvarp sem hér er á dagskrá og þess sem bíður og er væntanlegt frá hæstv. ráðherra.

Ég vil fyrst taka fram út af umræðunni áðan á milli hv. þm. Kristjáns L. Möllers og Bjarna Benediktssonar, þar sem Kristján L. Möller kallaði eftir afstöðu sjálfstæðismanna til sáttarinnar svokölluðu sem náðist í hinni sameiginlegu nefnd, að fulltrúi sjálfstæðismanna í þeirri vinnu, hv. þm. Einar Kristinn Guðfinnsson, gerði sérstaka bókun þegar nefndarstarfinu lauk. Ég vil minna á ákvæði þar og fá að lesa það hér, með leyfi forseta:

„Nú þegar þverpólitísk endurskoðunarnefnd skipuð fulltrúum hagsmunasamtaka í sjávarútvegi hefur skilað af sér nær samhljóða áliti um meginatriði fiskveiðistjórnarinnar er lögð mikil ábyrgð á herðar ríkisstjórnarinnar. Það verður í verkahring hennar að leggja fram frumvarp sem byggir á niðurstöðu nefndarinnar. Það frumvarp verður vitaskuld að fylgja þeirri meginlínu sem nefndin markaði og hér hefur verið lýst. Nefndarmenn tóku þátt í starfinu af fullri einurð og heilindum. Það var leitað málamiðlana og samkomulags í erfiðum úrlausnarefnum. Þegar því verki er lokið þá verður að ætlast til þess að ríkisstjórnin virði þann vilja og þá niðurstöðu sem þannig var fundin. Tilraunir til þess að víkja frá þeim meginsjónarmiðum sem liggja til grundvallar nær einróma niðurstöðu fjölskipaðrar nefndar ólíkra hagsmunahópa og stjórnmálaflokka væri bara hægt að túlka sem rof á samkomulagi sem menn gerðu í góðri trú.“

Nú háttar svo til að sú ríkisstjórn sem styðst við meiri hluta á Alþingi Íslendinga og var mynduð í maí 2009 setti sér það mark að endurskoða lög um stjórn fiskveiða og þeirri endurskoðun skyldi lokið 1. september 2010. Afurð þess ásetnings er að koma fram núna á síðustu dögum þessa þings. Samkvæmt starfsáætlun þingsins lifa eftir sex þingdagar. Ég hef ekki enn vitneskju um það hvernig menn hugsa sér að afgreiða þessi tvö frumvörp. Hins vegar liggur fyrir að skilningur flestra þeirra sem tóku þátt í þessu starfi er sá að þau frumvörp sem komið hafa frá ríkisstjórninni þessu máli tengd falli ekki með neinum hætti að þeirri niðurstöðu sem margnefnd sáttanefnd komst að.

Ekkert byggðarlag sem hefur ályktað um þessi frumvörp eða þessa stöðu fagnar þeim breytingum sem lagðar eru til, ekkert sjávarútvegsfyrirtæki, engin samtök sjómanna og ekkert verkalýðsfélag. Hvað veldur því? Töldu menn sig ekki hafa höndlað sannleikann og vera boðbera réttlætisins gegn því ömurlega fiskveiðistjórnarkerfi sem gera varð breytingar á? Hvernig skyldi standa á því að ekki ríkir almennur fögnuður meðal þjóðarinnar yfir því að nú loksins skuli vera komnar fram tillögur sem mæta þeim sjónarmiðum sem kallað hefur verið eftir að lögunum verði hnikað til móts við? Ég tel það stafa af óeiningunni meðal stjórnarflokkanna, einstakra þingmanna, innan hvors stjórnarflokks um sig, og því að ekki sé enn búið að jafna þann ágreining sem þar hefur verið. Þar af leiðandi verður afurðin sem frá þessari vinnu kemur í fyrsta lagi tvískipt, tvö frumvörp, og í öðru lagi sú að stjórnarþingmenn úr báðum stjórnarflokkum eru með fyrirvara við málið í heild eða einstakar greinar þess.

Eins og þetta tiltekna frumvarp hljóðar liggur fyrir að verið er að gera breytingar á því fiskveiðistjórnarkerfi sem hefur skilað þjóðinni að flestra mati ásættanlegum arði. Það er verið að gera breytingar sem að mati þeirra sem til þekkja munu leiða til þess að hagnaðurinn, arðurinn af þessari auðlind, verði ekki jafnmikill og æskilegt væri.

Það er raunar umhugsunarinnar virði að íhuga hvers vegna hvorugu þessara frumvarpa fylgir mat á hugsanlegum afleiðingum hvors um sig í samræmi við það regluverk sem ríkisstjórnin hefur sett sér. Nægir í því sambandi að nefna samþykkt núverandi ríkisstjórnar frá því í september 2010 þar sem kveðið er á um reglur um undirbúning og meðferð stjórnarfrumvarpa. Þær eru í engu virtar í þessum frumvörpum, svo ekki sé minnst á samþykktir sem unnar voru í forsætisráðuneytinu, skrifstofu Alþingis og dóms- og kirkjumálaráðuneytinu þáverandi 2007, þ.e. Handbók um undirbúning og frágang lagafrumvarpa . Þegar málatilbúnaðurinn er með þessum hætti verður afurðin eðlilega sú að illt verður að eiga við hana og miklar deilur verða um hana þar sem menn halda fram ólíkum sjónarmiðum, oft og tíðum illa rökstuddum.

Ég nefni sérstaklega tvær greinar í þessu sambandi sem mér finnst koma alleinkennilega fyrir sjónir. Ég nefndi raunar aðra þeirra í andsvari við hv. þm. Kristján L. Möller áðan, þ.e. 2. gr. þar sem sett er inn regla sem hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Hafi skip engar eða ekki nægar heimildir í einhverri tegund til að mæta skerðingu samkvæmt þessari grein, að teknu tilliti til heimildar til breytinga milli tegunda […] skal Fiskistofa veita hlutaðeigandi útgerð tveggja mánaða frest til að flytja fullnægjandi veiðiheimildir á skipið eða greiða fyrir sömu heimildir […] sérstakt gjald vegna ólögmæts sjávarafla.“

Það er með ólíkindum að slíkt ákvæði skuli vera sett þarna inn. Ég leyfi mér að fullyrða að það hljóti að vera mjög mikið vafamál hvort hægt sé að skylda einhvern til að kaupa sér réttindi eða eitthvað annað til að halda þeim atvinnurétti sem viðkomandi hefur fram til þessa áunnið sér.

Í annan stað vil ég nefna 6. gr. sem fjallar um hið margfræga veiðileyfagjald og skiptinguna á því. Strax eru komnar upp deilur um þetta atriði meðal sveitarfélaga, meðal hluta atvinnugreinarinnar o.fl. Í greinargerðinni með frumvarpinu er ágætisumfjöllun um þetta gjald. Rækilega hefur verið undirstrikað í umræðunni í dag að fjármálaráðuneytið eða fjárlagaskrifstofa ráðuneytisins hafi gert allítarlega umsögn um frumvarpið. Hún hefur af mörgum verið talin til stórtíðinda því að fjárlagaskrifstofan leyfir sér að draga í efa að ákvæði frumvarpsins um skiptingu veiðileyfagjaldsins standist stjórnarskrá. Það er ágætiskafli, eins og ég gat um áðan, í greinargerðinni frá fjárlagaskrifstofunni sem tekur á þessu atriði. Ég set mikinn fyrirvara við þær hugmyndir sem þar koma fram. Ég hef verið talsmaður þess í fjárlagagerð að ríkissjóðurinn tæki til sín öll þau gjöld sem lögð voru á í ríkisstarfseminni og þeim yrði deilt út þaðan. Ég hef ítrekað borið fram fyrirspurnir um þetta og haldið fram þessum sjónarmiðum allt frá því að ég tók til starfa í fjárlaganefnd og ég álít að vaxandi skilningur sé á þeim sjónarmiðum og stuðningur við þá sem halda þeim fram.

Það var hins vegar eitt atriði sem snýr að þessu máli sem vakti sérstaka athygli mína, á bls. 13 í frumvarpinu. Gott væri ef hæstv. utanríkisráðherra tæki sérstaklega eftir þessum orðum ef hann gæti lokað munninum eitt andartak. Í greinargerð frumvarpsins stendur, með leyfi forseta:

„Fyrir liggur að afar erfið staða blasir við í ríkisfjármálunum sem kallar á það að leita verður allra leiða til að afla aukinna tekna og að engin slík tækifæri verði látin fara forgörðum til að draga úr og stöðva mikla skuldasöfnun ríkissjóðs um þessar mundir.“

Þetta er í fyrsta skiptið sem maður fær staðfestingu úr þessum herbúðum á þeirri stöðu sem fjárlaganefnd hefur glímt við.

Jafnframt fylgdi þessum texta þessi setning, með leyfi forseta:

„Þörf fyrir það hefur enn ágerst við það að ríkissjóður hefur nýverið axlað auknar skuldbindingar til að greiða fyrir ásættanlegum lyktum kjarasamninga til lengri tíma …“

Er það önnur lýsing en sú sem við höfum fengið á áhrifum kjarasamninga í fjárlaganefnd þegar við funduðum síðast um það mál með fulltrúum fjárlagaskrifstofunnar.

Undir lok máls míns vil ég nefna sérstaklega það sem lýtur að aukinni kröfugerð. Eins og við höfum fengið upplýst í umræðunni í dag eru áherslurnar á strandveiðar orðnar slíkar að komnar eru fram kröfur um að festa tiltekna daga á þá báta sem til strandveiða fara og auka afla þeirra, fastsetja hann og jafnvel kvótann, en síðan vara menn við framsalinu. Sama sagan hefur endurtekið sig í þessum málaflokki í gegnum tíðina. Menn gera alltaf auknar kröfur um bætta stöðu og styrkari réttindi. Þetta er bara staðreynd sem liggur fyrir og því höfum við varað við þeim breytingum sem m.a. voru gerðar varðandi strandveiðarnar.

Þar sem ég á ekki nema rétt um hálfa mínútu eftir af tíma mínum vil ég ítreka þau sjónarmið sem ég nefndi í andsvörum við hv. þm. Þór Saari um að byggðamál séu ekki tengd umræðum um fiskveiðistjórnarkerfið eins og oft hefur verið gert, sérstaklega í því frumvarpi sem Hreyfingin hefur lagt fram. Það er engin töfralausn á byggðamálum fólgin í því að umturna endilega fiskveiðistjórnarkerfinu. Með því er ég ekki að segja að breytingar á veiðiheimildum hafi ekki áhrif á byggð í landinu, en þau stórkostlegu tíðindi að hægt sé að breyta byggðamynstrinu með því að flytja á milli byggðarlaga 10, 20 eða 100 tonn af þorski eða ýsu (Forseti hringir.) er ekki málflutningur sem ég tel boðlegan.