139. löggjafarþing — 135. fundur,  30. maí 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[22:59]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svörin. Ég hef tilhneigingu til að hlusta þegar hv. þingmaður talar um það sem máli skiptir fyrir byggðaþróun í landinu og finnst margt af því sem hann hefur lagt til mála vera skynsamlegt. Ég held að það sé réttmætt að hafa efasemdir um byggðakvótann og það hvort hann hafi skilað tilætluðum árangri á umliðnum árum. Ég minnist þess að fyrir ekki mörgum missirum voru uppi fyrirætlanir um að leggja hann einfaldlega af vegna þess að hann hefði einmitt ekki náð þessum markmiðum. Ég held að fara þurfi yfir þau sjónarmið í meðförum málsins í þinginu og tel að sannarlega ráði miklu fleiri þættir en byggðakvótinn þróun byggðarinnar og fólk leggi áherslu á aðra hluti í því sambandi eins og þjónustu, samgöngur, samskipti og annað sem hv. þingmaður hefur nefnt.

Ég vildi spyrja hv. þingmann út í veiðigjaldið. Nú hefur nokkuð verið kallað eftir útreikningum og sagt að þá skorti í tengslum við hvort greinin þoli þær breytingar sem hér eru lagðar til. Samkvæmt árgreiðsluaðferð Hagstofu Íslands er hagnaður í greininni 45 milljarðar. Hér er ekki tekið stærra skref en svo að auðlindagjald af slíkri afkomu gæti legið á bilinu 5–6 milljarðar en þó er gert ráð fyrir að af verulegum hagnaði mætti krefjast viðbótargjalda.

Ég spyr hv. þingmann hvað hann telji eðlilegt af 45 milljarða hagnaði að atvinnugrein sem byggir á sameiginlegri (Forseti hringir.) auðlind skili í sameiginlega sjóði, hvort honum finnist 6 milljarðar hæfilegt eða minna eða meira.