139. löggjafarþing — 135. fundur,  30. maí 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[23:01]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S) (andsvar):

Forseti. Varðandi veiðileyfagjaldið. Nú er lögð til gríðarleg hækkun á því. Hv. þingmaður nefndi árgreiðsluaðferð Hagstofu Íslands. Samkvæmt þeirri aðferð mun gjaldið nema ef ég man rétt um 36% af hagnaði útgerðarinnar. Ég skal alveg viðurkenna að mér finnst það gríðarlega há prósenta. Ég er þeirrar skoðunar úr því að við erum farin þessa leið með veiðileyfagjaldið að það miðist við það sem útgerðin getur greitt. Ég tel enga ástæðu til að láta þessa atvinnugrein sérstaklega bera allt aðrar byrðar í skattlagningu til ríkisins en annan atvinnurekstur í landinu. Ég vil t.d. minna á orð hv. þm. Einars Kristins Guðfinnssonar í ræðu hans í dag varðandi skattlagningu á aðrar auðlindir þegar hann nefndi sérstaklega skattinn á Landsvirkjun og Orkuveitu Reykjavíkur. Það væri fróðlegt að heyra viðhorf manna til þess.

Örlítið að byggðamálum í lok okkar samtals. Mér finnst sá málflutningur sem kristallast ágætlega í greinargerð Hreyfingarinnar með frumvarpi hennar vera í þeim anda sem alla tíð hefur verið frá því kvótakerfið kom á. Það vissu allir að það yrði erfitt og sársaukafullt að koma þeim breytingum á þegar hámarksaflinn var takmarkaður. Það kostaði fækkun skipa, fækkun vinnslustöðva og fækkun starfsmanna. Alla tíð síðan hefur verið spilað með það pólitískt. (Forseti hringir.) Mér hefur alltaf þótt það miður.