139. löggjafarþing — 135. fundur,  30. maí 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[23:31]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég held að við séum komin að kjarna máls. Samfylkingin er búin að láta gera skoðanakönnun og það eru bara 7% þjóðarinnar sem eru ánægð með kerfið. Þá skulum við setja á dagskrá þetta mál og kollvarpa kerfinu, þá hljótum við að vinna hug og hjörtu 93%, ekki satt? Þetta er sú taktík sem hér er verið að keyra. Það er alið á óánægjunni, það er nákvæmlega það sem fram kom í máli hv. þingmanns, komið er inn á óánægju fólks með kerfið og því seld sú hugmynd að þetta bæti úr málinu. Ég hef í máli mínu fært rök fyrir því að það er ekkert í þessu frumvarpi sem kemur til móts við þarfir þjóðarinnar við stjórn fiskveiða. Það er kjarni málsins.

Skýrsla starfshópsins vitnar um annað en að Sjálfstæðisflokkurinn vilji standa vörð um óbreytt kerfi. Við stóðum að þeirri skýrslu. Við höfum lagt okkur fram um að stuðla að sátt um kerfið og sagt að nýtingarsamningar komi til greina, enda séu þeir til langs tíma. Þeir verða auðvitað að vera endurnýjanlegir, þ.e. framlengjanlegir með einhverjum fyrirsjáanleika. Það skortir í hinu frumvarpinu sem er ekki á dagskrá hér í dag en hv. þingmaður vísaði til, það skortir allan fyrirsjáanleika í rekstur fyrirtækjanna.

Þegar rætt er um veiðigjaldið vil ég ítreka það sem ég sagði áðan, það er ein leið til að tryggja skýran afrakstur til þjóðarinnar af nýtingu auðlindarinnar en við megum ekki gleyma öllum hinum leiðunum. Við verðum að gæta þess að rekstur útgerðarinnar skili hámarkshagnaði til að sá tiltekni skattur skili ríkinu hámarkstekjum. Tillögur ríkisstjórnarinnar snúast um að draga úr afkomu greinarinnar þannig að gjaldið sem á síðan að vera hin mikla réttlæting skilar hlutfallslega minna. Það er til skaða og kallast að skjóta sig í fótinn.