139. löggjafarþing — 135. fundur,  30. maí 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[23:45]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég get tekið undir það með hv. þingmanni, það er mjög mikið á sig leggjandi til að koma til móts við þær breytingar sem hafa orðið í byggðarlögum eftir því sem stjórn fiskveiða hefur þróast. Það var mjög áberandi í umræðunni hér fyrir lagasetninguna árið 1990 að menn gerðu sér grein fyrir því að frjálsa framsalið mundi hafa mjög alvarlegar afleiðingar. Í það frumvarp og þau lög voru smíðaðar aðgerðir til að koma sérstaklega til móts við þær. Það má segja að í þau 20 ár sem síðan eru liðin hafi það verið viðvarandi viðfangsefni okkar hér á þingi að koma með nýjar leiðir til að koma til móts við þann vanda sem aukin hagræðing í greininni hefur valdið hinum ýmsu byggðarlögum. Meginmarkmið laganna náðist og það hefur reynst til heilla fyrir okkur sem þjóð, sem heild, að ná fram aukinni hagræðingu vegna þess að útgerðin stendur miklu sterkari fótum.

Meginefni fyrirspurnar hv. þingmanns var hvort ekki væru til fleiri leiðir. Ég er reiðubúinn að skoða fleiri leiðir. Það sem ég óttast í þeirri aðferðafræði sem liggur að baki strandveiðunum er að við séum að sigla inn í gamla tímann og að við höfum ekkert lært af því að það sé hætta á að frjáls aðgangur leiði til offjárfestingar og síminnkandi arðsemi fyrir hvern og einn sem kalli aftur á óvinsælar og erfiðar ákvarðanir hér á þingi. Þetta er þvert gegn því sem vinstri grænir mundu í venjulegum ræðum kalla sjálfbærni.