139. löggjafarþing — 136. fundur,  31. maí 2011.

störf þingsins.

[10:32]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Það vakti athygli mína og fleiri þingmanna að þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs auk þeirra sem hafa nú sagt skilið við þingflokkinn, að undanskildum hv. þm. Þráni Bertelssyni, hafa lagt fram þingsályktunartillögu á Alþingi sem gengur út á að Ísland segi sig úr NATO. (Gripið fram í: Já!) Er þetta mjög athyglisvert, sérstaklega í ljósi þess að Vinstri grænir eru nú í ríkisstjórnarsamstarfi með Samfylkingunni sem hefur aðild að NATO á dagskránni.

Það vekur líka furðu að ekki var minnst á þetta í stjórnarsáttmálanum svokallaða þegar þessir flokkar mynduðu hér ríkisstjórn. Því lyktar þetta mál nú nokkuð af því að þessi þingsályktunartillaga sé einungis ætluð til heimabrúks, til að friða kjósendur Vinstri grænna og gömlu alþýðubandalagsmannanna sem hafa gengið til liðs við Vinstri hreyfinguna – grænt framboð.

Mig langar því til að spyrja 1. flutningsmann frumvarpsins, Guðfríði Lilju Grétarsdóttur, hvort það sé hugsanlegt að þetta sé einungis til að friða kjósendur Vinstri grænna og jafnframt hvort þá sé ekki væntanlegt að Vinstri grænir setji sig enn frekar upp á móti Evrópusambandinu vegna þess að það var líka á stefnuskrá þeirra fyrir kosningar að vinna gegn því.

Er þetta eitthvað sem þingmennirnir ætla að berjast fyrir í ríkisstjórninni? Það er um stórmál að ræða og mikla stefnubreytingu af hálfu íslenska ríkisins. Í lokin langar mig til að spyrja hv. þm. Guðfríði Lilju Grétarsdóttur hvort þetta sé kannski hluti af stærra samhengi. Nú er NATO í stríði í Líbíu þannig að það er eðlilegt að maður velti fyrir sér hvort þetta sé kannski hræðsla hjá Vinstri grænum um að þar sé verið að nota vopn sem eiga kannski uppruna sinn á Íslandi, í áli því sem er framleitt (Forseti hringir.) í álverksmiðjum okkar.