139. löggjafarþing — 136. fundur,  31. maí 2011.

störf þingsins.

[10:44]
Horfa

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Ég ætlaði að eiga orðastað við hv. þm. Atla Gíslason sem ræddi nokkuð um störf þingsins í Morgunblaðinu í gær. Samkvæmt frásögn Morgunblaðsins af orðum hv. þm. Atla Gíslasonar felast störf þingsins einkum í því að innleiða Evrópugerðir til þess að samlagast Evrópusambandinu. Mér finnst þetta ekki gætileg yfirlýsing hjá hv. þingmanni og vegna þess að ég starfa í umhverfisnefnd sem einmitt fæst mjög við innleiðslu Evrópugerða (Gripið fram í: Ó, já.) langar mig að rekja hér nokkur mál fyrir þingheimi, sérstaklega hv. þingmanni.

Við höfum til dæmis afgreitt frá okkur, og þingið líka, frumvarp um stjórn vatnamála, um vatnatilskipun Evrópusambandsins. Við samþykktum nýlega mál sem byggist á evrópskum reglum um meðhöndlun úrgangs. Við höfum samþykkt mál á þinginu um eiturefni og efnablöndur þar sem EES-reglur eru sveigðar að reglum Sameinuðu þjóðanna. (Gripið fram í.) Við ætlum í sumar að fást við mál um umhverfisábyrgð sem er merkilegur lagabálkur. Grunngerð landupplýsinga hefur líka verið á dagskrá samkvæmt INSPIRE-tilskipuninni sem svo er nefnd og við erum núna að fást við losun gróðurhúsalofttegunda þar sem við tökum þátt í viðskiptakerfi Evrópusambandsins með losunarheimildir, EST-kerfinu svokallaða. Síðan má nefna Árósasamninginn til viðbótar þó að hann sé ekki beinlínis sprottinn úr þessu EES-dæmi.

Spurningin er: Er hv. þingmaður á móti einhverjum þessara mála? Telur hv. þingmaður að einhver af þessum málum (Forseti hringir.) séu hættuleg fyrir sjálfstæði Íslands og fullveldi? Telur hv. þingmaður að tíma umhverfisnefndar hefði verið betur varið til að gera eitthvað annað en að efla umhverfisrétt í landinu sem hefur verið vanræktur og (Forseti hringir.) forsómaður í marga áratugi?