139. löggjafarþing — 136. fundur,  31. maí 2011.

störf þingsins.

[10:48]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Frumkvæði Landsbanka Íslands í almennum aðgerðum fyrir skuldug heimili er lofsvert og fagnaðarefni. Það sýnir, svo ekki verður um villst, að samkomulagið í skuldamálunum í vetur var ekki lokasvar, heldur lágmarkssamningur fjármálastofnana. Og það er þeim öllum frjálst að ganga lengra í því efni.

Það er líka fagnaðarefni að Landsbankinn sjái hagsmuni sína í því. Við sem höfum talað fyrir almennum aðgerðum höfum bent á að þær fela ekki bara í sér eftirgjöf heldur styrki þær og bæti lánasöfn fjármálastofnana. Það er full ástæða til að hvetja önnur fjármálafyrirtæki til að taka sér þetta frumkvæði til fyrirmyndar. Það stendur ekki síst upp á okkur sem sitjum í þinginu gagnvart Íbúðalánasjóði. Ríkið er aðaleigandi Landsbankans og Íbúðalánasjóður hlýtur að þurfa að bjóða sambærileg úrræði og úrlausnir fyrir skuldara hjá sér og ríkisbankinn Landsbankinn.

Við rekum Íbúðalánasjóð sem almenningsstofnun í ríkiseigu vegna þess að fólk á að njóta þar að minnsta kosti jafngóðs stuðnings í húsnæðismálum og hið almenna bankakerfi veitir. Ef við erum ekki í færum til að bjóða það í Íbúðalánasjóði er engin ástæða fyrir ríkisrekstri Íbúðalánasjóðs. Þess vegna stendur það upp á okkur, í framhaldi af þessu frumkvæði, að taka þessi mál aftur til umfjöllunar og skoða þær heimildir sem Íbúðalánasjóður hefur í þessum efnum. Við þurfum líka að gæta að jafnræði skuldara eftir því hjá hvaða lánastofnunum þeir eru. Þó að það sé gott að fá fjölbreytt og ólík tilboð frá ólíkum lánastofnunum verður að gæta að ákveðnu jafnræði meðal skuldara í landinu. (Gripið fram í.)