139. löggjafarþing — 136. fundur,  31. maí 2011.

störf þingsins.

[10:52]
Horfa

Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Frú forseti. Nú hefur goslokum verið lýst yfir eftir skammvinnt en harkalegt gos í Grímsvötnum. Á fjölmennum íbúafundi austur á Klaustri í síðustu viku var farið vel yfir stöðu mála. Er ástæða til að lýsa yfir sérstakri ánægju með framgöngu Almannavarna, björgunarsveita og allra þeirra sem tóku þátt í því að koma hlutunum í lag og vinna gegn afleiðingum þess mikla goss sem gekk yfir svæðið.

Athygli okkar þingmanna var vakin á Bjargráðasjóði og vorum við sérstaklega beðnir að huga að þeim málum. Bjargráðasjóði er ætlað það hlutverk að bæta tjón sem er utan almennrar tryggingaverndar, samanber ákvæði um viðlagatryggingu. Í reglum frá apríl árið 2010 kemur meðal annars fram að Bjargráðasjóðs er að bæta tjón af völdum öskufalls; vegna hreinsunar ræktunarlands, eyðileggingar á ræktarlandi, uppskerurýrnunar, tjóns á búfé og afurðum þess, uppskerubrest, sjúkdóma og slysa sem koma fram í kjölfar hamfara o.s.frv. Hlutverk sjóðsins er því mjög mikilvægt til að gera upp tjón af völdum náttúruhamfara og ekki síst goss eins og við sáum í Grímsvötnum þar sem um er að ræða töluvert tjón á ræktunarlandi og búfénaði.

Formaður Bjargráðasjóðs nefndi á íbúafundinum að mjög mikilvægt væri að ríkisvaldið tryggði sjóðnum fjármagn til að bæta tjónið þannig að hægt væri að loka málum eins fljótt og þau kæmu upp, svo að það dragist ekki í mörg ár að gera upp hvert tjón hvert fyrir sig. Ég vil beina því til formanns landbúnaðar- og sjávarútvegsnefndar að fara sérstaklega yfir þetta mál og kalla til fundar við nefndina fulltrúa Bjargráðasjóðs og fara yfir það hvað sjóðurinn þarf til að mæta fram komnu tjóni þannig að það megi gera þetta hratt og örugglega upp.