139. löggjafarþing — 136. fundur,  31. maí 2011.

störf þingsins.

[10:54]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessar upplýsingar og vil geta þess að hv. sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd hefur flutt frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 99/1993, um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum, með síðari breytingum. Frumvarpið hefur verið lagt fram í tvennum tilgangi. Annars vegar til að lengja tímamörk laga nr. 46/2010, um breytingar á lögum um Bjargráðasjóð, og lögum um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum, þ.e. stuðningur við bændur á náttúruhamfarasvæðum, sem samþykkt voru til að bregðast við afleiðingum eldgoss í Eyjafjallajökli. Er í þeim efnum miðað við gildistíma núverandi búvörusamnings um mjólkurframleiðslu. Hins vegar er tilgangurinn að heimila að viðeigandi ákvæði laga nr. 46/2010 nái einnig til framleiðenda á lögbýlum þar sem afurðasala hefur verið bönnuð af ástæðum sem hlutaðeigandi framleiðandi gat ekki haft áhrif á. Þannig væri brugðist við aðstæðum sem meðal annars hafa komið fram í Skutulsfirði við Ísafjarðardjúp vegna díoxínmengunar og/eða í öðrum sambærilegum tilvikum sem upp kunna að koma.

Þessi lög munu einnig ná yfir þá bændur sem orðið hafa fyrir skaða vegna eldgossins í Grímsvötnum og ég tel að tryggja þurfi Bjargráðasjóði nægt fjármagn til að mæta þeim áföllum sem orðið hafa hjá bændum, bæði vegna náttúruhamfara og af öðrum sökum. Ég tel að það sé fullur vilji ríkisvaldsins til að koma til móts við þá þörf hjá Bjargráðasjóði og tek vel í þær tillögur að hv. sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd kalli til sín fulltrúa úr stjórn sjóðsins til að fara yfir þessi mál.