139. löggjafarþing — 136. fundur,  31. maí 2011.

störf þingsins.

[10:59]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S):

Frú forseti. Mig langar að eiga orðastað við formann heilbrigðisnefndar, hv. þm. Þuríði Backman, vegna nýlegrar könnunar um aðbúnað eldri borgara á hjúkrunarheimilum. Í gegnum tíðina hefur þetta iðulega verið til umræðu en í meginatriðum standa íslensk hjúkrunarheimili vel þó að á ýmsum stöðum megi gera betur.

Nú er það svo að eldri borgarar fá ekki upplýsingar um það hvaða hjúkrunarheimili mættu gera betur. En ég tel engu að síður forvitnilegt að vita afstöðu hv. formanns heilbrigðisnefndar til þess hvort ekki sé rétt að nýta upplýsingarnar um aðbúnaðinn í þágu eldri borgara, til að gera gott betur. Við sjáum til að mynda í skólakerfinu, í gegnum PISA-könnunina, að fyrr á árum voru ákveðnir skólar sem hefðu getað staðið sig betur. Svo að dæmi sé tekið tók Grunnskólinn í Skagafirði sig verulega á, rýndi könnunina. Og hvað gerðist í síðustu könnun? Hann er í fararbroddi meðal grunnskóla á landinu, kannski ekki við öðru að búast því að Skagafjörðurinn er mikið mennta- og menningarsamfélag.

Ég held að við eigum að nota svona upplýsingar til að byggja upp, ekki til að rífa niður. Ég vænti þess að fá svar frá hv. formanni heilbrigðisnefndar um það hvernig hún sjái að við getum nýtt upplýsingar af þessu tagi.

Að gefnu tilefni og að lokum vil ég ítreka það að við Íslendingar eigum að ítreka stuðning okkar við öryggis-, varnar- og friðarbandalagið NATO.