139. löggjafarþing — 136. fundur,  31. maí 2011.

innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta.

864. mál
[11:16]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vil sem formaður efnahags- og skattanefndar taka eindregið og heils hugar undir með þingmanninum í því sem hún segir um mikilvægi þess í hvaða mynt útgreiðslurnar í tryggingakerfinu eigi að vera. Þar búum við Íslendingar auðvitað að sárri reynslu sem er full ástæða til að við komum á framfæri við aðrar þjóðir. Það er grundvallaratriði að tryggingarsjóðurinn greiði tryggingarnar út í mynt viðkomandi ríkis, þeirri mynt sem viðkomandi ríki á tiltækt og hefur yfirráð yfir en ekki eins og við lentum í, að hafa tryggt innstæður í erlendum myntum sem við höfum enga lögsögu yfir og eigum einfaldlega takmarkað af hér í landinu og reyndumst þess vegna ekki vera gjaldfær. Það er einfaldlega grundvallaratriði um tryggingakerfið að það sé tryggingakerfi í innlendri mynt. Norðmenn voru nægilega farsælir til þess við innleiðingu tilskipananna á sínum tíma að binda útgreiðslur hjá sér við norskar krónur. Það varð til þess að þegar fjármálastofnanir þeirra hófu starfsemi í löndum þar sem annar lögeyrir var en norskar krónur stofnuðu þeir útibú og tryggðu þess vegna ekki þá starfsemi heima í Noregi. Ef við hefðum borið gæfu til þess að innleiða með sama hætti tilskipunina á sínum tíma hefðum við ekki staðið frammi fyrir þeim vanda sem við síðar gerðum í hinu skelfilega Icesave-máli. Það er rétt hjá hv. þingmanni að það er mikilvægt að við komum þessari sáru og kostnaðarsömu reynslu okkar á framfæri við umheiminn og nágrannalönd okkar.