139. löggjafarþing — 136. fundur,  31. maí 2011.

innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta.

864. mál
[11:38]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegur forseti. Ég held að sú niðurstaða sem hér er komin sé gott dæmi um það að menn geti unnið saman og náð ásættanlegri lendingu. Málinu er ekki lokið en þessi lending núna er mjög skynsamleg. Í örstuttu máli gengur hún út á það að við hækkum iðgjaldið og takmörkum tryggingaverndina, setjum þetta í sérstaka deild, og síðan munum við fara yfir málið aftur á haustþingi í október. Hæstv. ráðherra og forustumenn í hv. viðskiptanefnd hafa lýst því yfir að fram að þeim tíma séu þeir tilbúnir til að fara betur yfir málið og er full þörf á því.

Ég hef núna í tvö ár samfleytt reynt að koma í veg fyrir að þetta slys verði, þ.e. þessi lög eins og þau liggja fyrir núna. Ástæðan er einföld, þetta kerfi gengur ekki upp fyrir Ísland. Við verðum að láta á það reyna hvort ekki er hægt að finna aðrar leiðir því að tryggingarsjóður fyrir þrjá banka gengur ekki upp eins og allir vita. Það væri ekki hægt að hafa tryggingafélag fyrir þrjá bílaeigendur. Þeir geta ekki tekið sig saman og stofnað tryggingafélag með eðlileg iðgjöld en það er hugsanlega hægt að vera með tryggingafélag með þúsund bíla eða eitthvað slíkt. Um þetta snýst málið.

Það sem vekur manni von um að hægt sé að vinna að þessu máli þannig að góð lending náist er að sjá hvernig Norðmenn haga sér og við ættum að taka þá til fyrirmyndar. Þeir eru með aðra hagsmuni en við, þeir eru með aðrar áherslur enda eru þeir í þeim sérkennilega vanda að eiga mjög mikið af fjármunum. Þeir ætla augljóslega ekki að samþykkja að þetta fari inn í EES-samninginn sem þýðir einfaldlega að við höfum góðan tíma til að vinna að þessu máli því að það er ekki verið að taka þetta upp í EES-samninginn. Á sama tíma eru þeir að vinna að því að fá breytingar inn í tilskipunina sem er núna í vinnslu á Evrópuþinginu, og ég sé enga aðra leið fyrir okkur en að vinna eins og benda þá á okkar augljósu sérstöðu. Það þarf ekki að útskýra fyrir neinum útlendingi hvaða skaða sú tilskipun getur valdið og var hún samt ekki jafnslæm og sú tilskipun sem menn eru að reyna að innleiða í lög núna. Stóra breytingin frá gömlu tilskipuninni sem olli Icesave-milliríkjadeilunum og þessari er einfaldlega sú að hér er kveðið fastar á um það eða miklu ákveðnar að ríkið eigi að bera ábyrgð á því að innstæðutryggingarsjóðurinn sé fjármagnaður. Ég sé engan mun á því og ríkisábyrgð. Og síðan hitt að hækka á innstæðutrygginguna úr 20 þús. evrum í 100 þús. evrur eða úr 2–3 millj. upp í 16 millj. ísl. króna. Það sér hver maður, virðulegi forseti, að þetta gengur ekki upp fyrir Ísland og nú reynir á.

Það væri langbest ef góð samstaða væri meðal þingmanna um að ná fram breytingum og menn gætu þá nýtt sér þau tengsl sem þeir hafa meðal annarra þjóða. Ég hef svona lagt drögin að því nú þegar og hef sett mig í samband við þá Evrópuþingmenn sem ég er í tengslum við til að koma sjónarmiðum okkar á framfæri. Ég vona að það verði samstaða um að við getum unnið þannig, allir þingmenn, ég held að flestir hafi einhverjar tengingar. Ég er svo lánsamur að hafa þekkt suma af þeim sem eru á Evrópuþinginu í áratugi og það hefur nýst ágætlega í ýmsum málum.

Ég tel að við eigum að taka Norðmenn okkur til fyrirmyndar. Eins og kom fram í ræðu utanríkisráðherra Noregs, sem ég las hér upp úr og hv. þm. Kristján Þór Júlíusson benti mér á eftir að hafa hlustað á hana í Noregi um daginn, eru þeir ófeimnir bæði að tala um það og svo sannarlega að framkvæma það að gæta hagsmuna sinna í samskiptum við Evrópusambandið og það eigum við líka að gera. Það er enginn vafi á því að slagkrafturinn verður mestur ef góð samstaða er meðal þingmanna í öllum flokkum um að gera það. Ég er ekki sérfræðingur í norskum stjórnmálum eða fylgist það vel með þeim að ég átti mig á því hvort full samstaða er um þessa leið ríkisstjórnar Noregs en hvort heldur sem er skirrast þeir ekkert við að gæta hagsmuna sinna í samskiptum við Evrópusambandið og við eigum auðvitað ekki að vera neinir eftirbátar hvað það varðar.

Virðulegi forseti. Um leið og ég þakka hæstv. ráðherra og hv. þingmönnum í hv. viðskiptanefnd fyrir að hafa unnið svona að málum á lokastigi málsins býð ég bæði fram krafta mína og óska eftir góðu samstarfi við þá í sumar áður en þing kemur saman í haust. Ég trúi því ekki að þetta verði svipað og var síðasta sumar en þá lagði ríkisstjórnin, mig minnir að hafi verið hæstv. forsætisráðherra, upp með mikið samráðsferli um stjórnkerfið en það fór hins vegar þannig fram að enginn fundur var haldinn, ekki einn einasti, það voru engin samskipti. Það var samráðsferlið þá. Ég hef enga trú á því að hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra muni vinna með sama hætti, ég trúi því þegar hann segir að hann ætli að gera þetta af alvöru. Og eins og ég hef nefnt áður býð ég fram krafta mína og ég veit að það sama á við um alla þingmenn Sjálfstæðisflokksins og örugglega í fleiri ef ekki öllum flokkum þó svo að ég tali náttúrlega ekki fyrir hönd þeirra.

Ég þakka fyrir þennan framgang. Ég hvet alla til að styðja málið eins og það liggur fyrir núna. Ég vonast til að það verði góður andi í vinnunni í sumar og við getum klárað þetta þannig að sátt verði um og að við gætum hagsmuna Íslendinga til framtíðar þegar við göngum frá málinu, hvort sem það verður í haust eða næsta vetur.