139. löggjafarþing — 136. fundur,  31. maí 2011.

innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta.

864. mál
[11:46]
Horfa

Magnús Orri Schram (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil fá að leggja orð í belg í umræðu um þennan litla stubb sem viðskiptanefnd flytur saman og tengist innstæðutryggingakerfi.

Til umræðu hefur verið í nefndinni í hátt á annað ár nýtt frumvarp um breytingar á innstæðutryggingakerfinu með fjölmörgum kostum fyrir íslenska sparifjáreigendur, fyrir fjármálastöðugleika og fyrir íslenskt bankakerfi. Viðskiptanefnd hefur eytt gríðarlegum tíma og vinnu í málið enda er það flókið og mikilvægt.

Í frumvarpinu stóra sem hefur verið til umfjöllunar í nefndinni var lögð áhersla á að greitt yrði hraðar, betur og meira inn í nýjan innstæðutryggingarsjóð og að betur væri skilgreint hvað væri innstæða. Lágmarksupphæðin um tryggingu til handa sparifjáreiganda var aukin, við vorum með því að auka á vernd hins almenna sparifjáreiganda. Skýrt var tekið á því að ekki væri um ríkisábyrgð á sjóðnum að ræða en þeir sem hafa unnið í þessu frumvarpi og barist fyrir því að það mundi verða að lögum töldu að það væri mikilvægt til þess að aflétta þeirri ríkisábyrgð sem felst í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar.

Hins vegar hefur komið berlega í ljós að mikilvægt er í anda nýrra vinnubragða að þingmenn og þingnefndir gefi sér góðan og drjúgan tíma til að ræða saman að niðurstöðu í málinu enda er innstæðutryggingakerfi, byggt á biturri reynslu okkar Íslendinga, gríðarlega mikilvægur lagabálkur. Þess vegna hefur viðskiptanefnd ákveðið í sameiningu að leggjast betur yfir málið á næstu missirum og freista þess að ná sátt á milli hlutaðeigandi aðila um hvort hægt sé að koma á lögum um innstæðutryggingarsjóð í anda samvinnu og sáttar í nefndinni og á milli Alþingis og framkvæmdarvaldsins.

Því er ákveðið hér að fara fram með einn hluta af frumvarpinu og leggja áherslu á það að skilgreina betur hvað innstæða er, til hvers tryggingin nái, að iðgjöld skuli vera greidd út í íslenskum krónum og svo fyrst og fremst að hækka iðgjaldið og skipta því í tvennt, annars vegar grunniðgjaldið og hins vegar áhættuvegið iðgjald. Við erum því að taka mjög mikilvæg málefni út úr hinu stóra frumvarpi og vonandi verður það að lögum í dag í sátt og anda viðskiptanefndar. Vil ég sem varaformaður nefndarinnar þakka þá góðu umræðu sem hefur verið í nefndinni á undanförnum vikum, sem og fyrir þá sátt sem náðist meðal allra hlutaðeigandi um meðferð málsins.