139. löggjafarþing — 136. fundur,  31. maí 2011.

opinber innkaup.

189. mál
[12:26]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég er auðvitað eins og alltaf sammála hv. þingmanni þegar hann tekur með jákvæðum hætti á framfaramálum. Hins vegar er það mjög skondið svo ekki sé meira sagt að hv. þingmaður, sem er nú hvað vaskasti talsmaður frjálsrar samkeppni, fær samt alltaf dálítinn hroll þegar hann stendur andspænis tillögum um raunverulega frjálsa samkeppni, hvort heldur það er á lyfjamarkaðnum eða í sjávarútvegi, án þess að ég ætli að fara að draga fiskveiðifrumvarpið og málstað hv. þingmanns og heldur vondan málflutning hans, a.m.k. rökfræðilega í því efni, inn í þessa umræðu.

Mér þótti það heldur skrýtið að heyra úr munni þessa mikla samkeppnisfrömuðar að hann telur að auka þurfi enn frekar eftirlit með heimild ríkisins til að taka þátt í útboðum á erlendri grundu. Ég hélt að ég og hv. þingmaður værum sammála um að draga ætti úr öllum þeim eftirlitsiðnaði sem komið var á fót í 18 ára stjórnartíð Sjálfstæðisflokksins.

Ég kem aðallega upp af tvennu tilefni, frú forseti, aðeins til að segja að þegar ég sat í ríkisstjórn með hv. þm. Guðlaugi Þór Þórðarsyni var framganga hans í þessum efnum vösk og framsækin.

Í öðru lagi kem ég upp til að vekja eftirtekt á því að það er svolítið krúttlegt að heyra þennan ágæta talsmann Sjálfstæðisflokksins, sem er nú einn af þeim yngstu, vöskustu og efnilegustu, falla allt í einu á fallegan hátt til upphafsins, sem er hið gamla hlutverk Sjálfstæðisflokksins, að vernda íslenska heildsalann.