139. löggjafarþing — 136. fundur,  31. maí 2011.

opinber innkaup.

189. mál
[12:30]
Horfa

Magnús Orri Schram (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þessa umræðu og hressileg skoðanaskipti utanríkisráðherra og hv. þm. Sigurðar Kára Kristjánssonar. Ég vil fá að leggja orð í belg í þessari umræðu um samkeppnismatið, vegna þess að hér er að nokkru leyti verið að taka undir þau álitaefni sem Samkeppniseftirlitið vakti máls á við umfjöllun nefndarinnar. Í þeirri umfjöllun lagði Samkeppniseftirlitið á það ríka áherslu að í rökstuðningi Innkaupastofnunar væri gætt að því að ekki væri til staðar virk samkeppni hér á landi. Það væri þá forsenda þess að mega fara í útboð með erlendum samstarfsaðilum að til staðar væri ekki virk samkeppni hér á landi.

Samfylkingin er eini raunverulegi flokkur samkeppnismála á þessu þjóðþingi og berst fyrir samkeppninni víða. Við getum farið í gegnum það í okkar helstu málum, svo sem sjávarútvegsmálum eða landbúnaðarmálum. Ég tel þess vegna að við ættum að taka undir þessa breytingartillögu og ég ítreka að forsenda þess að menn fái leyfi til útboðs erlendis er sú að ekki er til staðar virk samkeppni hér á landi. Ég tel því að þessi breyting muni virkja samkeppnina hér á landi og leiða til hagsbóta fyrir neytendur, það er að hún komi þá síðar.

Þetta er það sem ég vildi bæta við þessa umræðu. Að öðru leyti vil ég þakka fyrir og ég æski þess og vona að þetta verði að lögum hér síðar í dag.