139. löggjafarþing — 138. fundur,  31. maí 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[14:24]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þm. Eygló Harðardóttur fyrir að hafa gert grein fyrir leið Framsóknarflokksins í þessum málum. Mig langar að spyrja hv. þingmann nánar út í þá leið sem hún boðar þar sem menn byrja í strandveiðum, komast raunverulega inn í strandveiðarnar án þess að leggja fram fé nema fyrir bát og veiðarfærum, síðan geta menn keypt sig inn í aflamarkskerfið og fara þar af leiðandi úr því að vera nýliðar, getum við sagt, yfir í að verða fullgildir atvinnusjómenn.

Mig langar að spyrja þingmanninn: Ef takmarkanir eru á framsali á þann hátt að ekki megi selja aflahlutdeildir, hvar eiga þeir sem koma inn í greinina að kaupa? Eiga þeir að kaupa af ríkinu?

Í öðru lagi. Útilokar þingmaðurinn alla hagræðingu? Vill hún bara fjölga í greininni, (Forseti hringir.) ekki hagræða í henni?