139. löggjafarþing — 138. fundur,  31. maí 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[14:35]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Þetta er áhugavert. Þessi umræða er farin að minna mig á aðra stóra umræðu sem var fljótlega eftir að þessir stjórnarflokkar tóku við. Þá var meðal annars hæstv. utanríkisráðherra greinilega búinn að lesa mjög vel stefnu Framsóknarflokksins. Mér finnst áhugavert hversu oft menn vitna í umræðunni í stefnu Framsóknarflokksins en kannski minna í sínar eigin stefnur. Það er svo sem skiljanlegt í þessu máli þar sem stjórnarflokkarnir víkja mjög frá þeirri stefnu sem þeir voru kosnir út á.

Það sem við segjum í okkar stefnu er að samningurinn verði endurskoðaður á fimm ára fresti með möguleika á framlengingu til fimm ára í senn. Það er eitt af því sem þarf síðan að ræða í nefndinni. Erum við að tala um sjálfkrafa framlengingu eða erum við að tala um að það sé matsatriði í hvert sinn hvort þeir verði framlengdir? Erum við að tala um að þá bætist fimm ár við þennan 20 ára tíma eða erum við að tala um að á fimm ára fresti séu samningarnir opnir til endurskoðunar þannig að standi viðkomandi ekki við þær skyldur sem við setjum fram verða aflaheimildirnar innkallaðar?

Það sem ég legg áherslu á þegar við vinnum þetta mál er að sé það mjög skýrt og að það sé (Forseti hringir.) ákveðinn grunnur sem fyrirtækin geti unnið út frá, ákveðin sýn. Það sem ég hef mjög miklar áhyggjur af vegna stóra frumvarpsins er að þetta endar eftir ákveðinn árafjölda. Og hvað svo? (Forseti hringir.)