139. löggjafarþing — 138. fundur,  31. maí 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[14:58]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Menn verða alltaf að leyfa sér þann munað að hugsa hlutina upp á nýtt. Það er hugsanlegt að Samfylkingin væri til í það í dag að breyta ákvæðum stjórnarskrárinnar um forsetann, ég skal ekkert um það segja. En í þessum efnum verða allir að leyfa sér þann munað að hugsa upp á nýtt. Það er nú ekki björgulegt ef maður horfir á stjórnarandstöðuna. Hreyfingin er með eitt tiltekið frumvarp. Framsóknarflokkurinn með ákveðna stefnu. Stærsti flokkurinn í stjórnarandstöðu gefur frat í hvort tveggja. Það er nú erfitt að sópa þessu saman undir einn væng. Við skulum samt reyna það.

Ég tel að hv. þingmaður ætti að skoða ákveðna fleti sem hægt er að segja að snertist í tillögum Framsóknarflokksins og þeim frumvörpum sem hér liggja fyrir og líka í stefnu Sjálfstæðisflokksins og kanna það í hugardjúpum sínum, af því hún er svo sáttfús í dag, hvort ekki væri hægt, með því að allir slægju nú svolítið af, að ná þarna ákveðinni sameiginlegri niðurstöðu. Ég held að það sé hægt. Mér sýnist þó að Sjálfstæðisflokkurinn sé bara á þeim buxunum að vilja enga sátt í þessu máli. (Gripið fram í.)