139. löggjafarþing — 138. fundur,  31. maí 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[15:16]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Örstutt af minni hálfu. Þetta er slagur en þetta er ekki slagur á milli landsbyggðar og höfuðborgarsvæðis, því fer fjarri. Þetta er hins vegar slagur um hugmyndafræði. Þetta er slagur um það að fara úr tiltölulega vel reknu regluföstu markaðshagkerfi í sjávarútvegi yfir í það að fara í miðstýrt ráðherraapparat; pólitíska handstýringu. Það er það sem þetta frumvarp byggir á, að taka af einhverju einu svæði, ákveðnum fyrirtækjum, til að setja í potta. Og hver á að úthluta? Það er ráðherrann sjálfur sem ræður hverju sinni. Því er ég að mótmæla meðal annars. Það er það sem slagurinn snýst um. Þetta snýst um það að reyna að byggja upp og bæta það sem vel er gert, reyna að halda í frelsið, reyna að halda í það sem við trúum á varðandi markaðinn, varðandi það að við viljum ekki ríkisforsjá í sjávarútvegi. Við viljum ekki að hann verði ríkisstyrktur eins og alls staðar annars staðar en það er akkúrat það sem núverandi ríkisstjórn er að gera. Fyrir því munum við berjast, sjálfstæðismenn, og berjast gegn. (Gripið fram í: Til síðasta blóðdropa.)