139. löggjafarþing — 138. fundur,  31. maí 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[15:38]
Horfa

Árni Johnsen (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er engin spurning að það skiptir miklu máli að aflaheimildir séu ekki teknar af einni byggð og settar til annarrar. Það er fljótandi í málum ríkisstjórnarinnar að taka af einu sjávarplássi og setja til annars. Er það jafnræði? Það er valdbeiting.

Útgerðarmenn í Eyjum mundu aldrei flytja til Akureyrar eða annarra byggða með kvóta sinn vegna þess að þar, eins og í flestum greinum útgerðarinnar, eru hugsjónamenn sem binda sig við staði og möguleikana þar og bera að verulegum hluta ábyrgð á samfélaginu. Það er styrkur sjávarútvegsins. Það eru algerar undantekningar sem hv. þm. Lilja Rafney Magnúsdóttir er að tala um þar sem menn hafa misst niður um sig buxurnar í þessum efnum. (Gripið fram í: … selja það sem …)

Kvótastaðan, hvort sem hún er í Eyjafirði, við Suðurland, Vestfirði eða Austfirði, er nánast í sama hlutfalli og hún var í upphafi kvótakerfisins. Hún hefur rokkað til eða frá um 1% og yfirleitt jafnast út. Þetta slítur í sundur málflutning hv. þingmanns um að það væri verið að flaka landsbyggðina.

Strandveiðibátarnir eru alls góðs maklegir á réttum forsendum. Þar erum við að tala um um það bil 4% af afla landsins. Það er ekki grundvallaratriðið. Strandveiðar eru skemmtilegar og æskilegar (Forseti hringir.) en geta ekki verið grundvallaratriði í viðmiðun á uppsetningu fiskveiðistjórnarkerfis (Forseti hringir.) Íslendinga.