139. löggjafarþing — 138. fundur,  31. maí 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[16:02]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil fyrst spyrja hv. þingmann hverja hann telji hagsmunaaðila þegar sjávarútvegsmál og þessi stærsti atvinnuvegur þjóðarinnar er annars vegar. Telur hann það bara vera LÍÚ, Landssamband smábátaeigenda og sjómannasamtökin eða telur hann það vera allan þjónustugeirann, fiskvinnslukonurnar og allt starfsfólk sem hefur atvinnu með beinum eða óbeinum hætti af þessum málum þegar við köllum að borðinu hagsmunaaðila?

Hv. þingmaður kom áðan inn á hvort ég teldi að það væri verið að mismuna sjávarbyggðum og hvort það væri bara ein gerð sjávarbyggða sem væri verið að styðja með þessu frumvarpi. Ég spyr hv. þingmann hvort hann styðji það að aflaaukningin renni að hluta til til strandveiða. Það er verið að tala um að aflaaukning „renni að hluta til“ en ekki að veiðiheimildir verði teknar af núverandi handhöfum þeirra.

Hv. þingmaður beindi líka til mín spurningu um árangur af strandveiðum. Ég bendi hv. þingmanni á skýrslu Háskólaseturs Vestfjarða um þann árangur sem ég held að væri mjög hollt og gott að lesa. Hún sýnir að strandveiðar hafa haft mikil og góð samfélagsleg áhrif á byggðir. Um það að tala niður til sjávarútvegsins, það hef ég ekki gert og mun aldrei gera.