139. löggjafarþing — 138. fundur,  31. maí 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[16:04]
Horfa

Íris Róbertsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Hagsmunaaðilar eru allir þeir sem koma að greininni. Í skipan starfshóps um sáttanefndina eru ansi margir hagsmunaaðilar taldir upp. Það voru 18 aðilar í þessari nefnd. Hér á blaði er ég með nöfn fulltrúa þeirra sem voru þarna og þeir eru tíu, þá tel ég ekki með stjórnmálamennina sem skrifa undir, tíu aðilar eru búnir að lýsa því yfir að þessi frumvörp séu ekki byggð á þessari sátt. Þetta eru hagsmunaaðilar. Hagsmunaaðilar er líka fólkið á stöðunum, hagsmunaaðilar eru allir Íslendingar, við erum hagsmunaaðilarnir. Þeir hagsmunaaðilar sem eru í greininni komu að starfi sáttanefndarinnar sem hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra skipaði og hefur örugglega farið vel yfir hverjir ættu heima í þeim hópi. Það eru hagsmunaaðilar.

Annað, ég spurði um nýliðun, ég spurði ekki um hver samfélagslegu áhrifin hefðu orðið, ég spurði hv. þingmann hvort hann hefði einhverja tölu um nýliðun í greininni í gegnum strandveiðarnar. Hv. þingmaður spurði mig um aukninguna sem ætti að fara að helmingi eða hluta til beint til strandveiða. Ég er ekki sátt við að það sé sagt að ekki sé tekið af neinum. Það var búið að taka af þeim sem voru með veiðiheimildir þegar kvótinn var skertur. Þá var tekið af þeim með vilyrði um að þeir fengju eitthvað þegar bætt yrði í.

Virðulegi forseti. Ég get (Forseti hringir.) ekki séð annað en að það sé verið að taka af einhverjum.