139. löggjafarþing — 138. fundur,  31. maí 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[16:06]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður kom áðan inn á að mikil óvissa ríkti í sjávarútvegi og það drægi úr áhuga manna á að fjárfesta í greininni. Ég spyr hv. þingmann hvað hann telji þá um það að eitt stærsta og öflugasta fyrirtæki landsins, Samherji, hafi fjárfest nýlega í útgerðarfyrirtæki á Akureyri fyrir um 14 milljarða. Ber það vott um óvissu í greininni eða ber það vott um traust til núverandi ríkisstjórnar og þess kvótakerfis sem er lagt til í frumvarpsdrögum?

Ég bendi hv. þingmanni á að í þessari stóru svokölluðu sáttanefnd, sem ég sat í, var sátt um þær meginlínur að skoðuð yrði samningaleið á móti pottaleið. Þann veg erum við að ganga núna en allar bókanirnar um fyrirvara sem eru í skýrslunni (Forseti hringir.) og þingmaðurinn ætti að kynna sér segja líka að menn voru ekki búnir að útfæra neitt.