139. löggjafarþing — 138. fundur,  31. maí 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[16:26]
Horfa

Ólína Þorvarðardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það er rétt að það dró nokkuð úr hinum samfélagslegu áhrifum af strandveiðunum, m.a. vegna þess hvernig svæðaskiptingin kom út, og ég held að við séum bara sammála um það, við hv. þingmaður, að þá svæðaskiptingu þurfi að endurskoða.

Ég tek undir að það er ekki góð stjórnsýsla að gera ráð fyrir of miklu alræðisvaldi ráðherra í nokkurri grein, hvorki í sjávarútvegsráðuneytinu né annars staðar. En það er í okkar valdi, nefndarmanna í hv. sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd, að gera tillögur til bóta og lagfæra þá það sem betur mætti fara í þessu frumvarpi, m.a. varðandi svæðaskiptinguna. Þess vegna langar mig til að spyrja hv. þingmann hvernig hann mundi vilja sjá þessu fyrirkomið með svæðaskiptinguna. Ég vænti þess að hv. þingmaður sé ekki í hjarta sínu mótfallinn strandveiðum. Það væri gott ef hann vildi svara þessu: Er hann stuðningsmaður strandveiða yfir höfuð eða ekki? Ef hann er stuðningsmaður strandveiða, hvernig mundi hann þá vilja leiðrétta þá agnúa sem við sjáum á svæðaskiptingunni eins og hún hefur verið? Tekur þingmaðurinn til dæmis undir hugmyndir sem hafa komið fram og mér finnast athyglisverðar, að gera ráð fyrir einni strandveiðihelgi í kringum landið og afnema þessa landshlutaskiptingu?