139. löggjafarþing — 138. fundur,  31. maí 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[16:30]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er áhugavert að taka þátt í þessari umræðu. Við erum kannski farin að tala um innihald frumvarpsins. Í sambandi við strandveiðarnar eins og hv. þingmenn töluðu um áðan skiptir það gríðarlegu máli — og er kannski sá grundvallarmunur á frumvarpinu og stefnu okkar framsóknarmanna þegar við erum að tala um þessa potta og þar á meðal strandveiðar, sem við köllum reyndar nýliðunarpott þar sem settar yrðu sterkari stoðir undir að menn gætu byggt upp innan þeirrar greinar en við núverandi strandveiðar sem eru meira hobbítengdar — að ekki verði tekið af öðrum. Það er einmitt það sem skortir núna. Allt í einu virðist vera óhætt að úthluta 3 þús. tonnum til viðbótar og þau bara tekin út fyrir þann sviga sem gert er ráð fyrir í dag. Maður spyr sig.

Mig langar aðeins að heyra álit hv. þm. Einars K. Guðfinnssonar á þeirri 20% aflareglu og þeim varúðarsjónarmiðum sem menn hafa verið með varðandi hana og hvort verið sé að raska henni og hvað sé verið að sækja og hvort ekki hefði verið eðlilegra núna í ljósi þess að möguleiki er á að auka úthlutun á yfirstandandi ári að úthluta því til núverandi atvinnuskipa. Það er dálítið sérkennilegt að horfa fram á að þau verði bundin við bryggju og hobbíveiðimenn rói yfir sumarmánuðina. Þetta hljómar svolítið sérkennilega og mig langar að heyra álit hv. þingmanns á því hvort hann óttist að við séum að stofna varúðarsjónarmiðum varðandi aflaregluna, þá gæðastýringu og þau vottorð sem sjálfbærar veiðar hafa fengið í hættu með þessari úthlutun.