139. löggjafarþing — 138. fundur,  31. maí 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[16:34]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Það er annar vinkill á þessu máli sem mig langar aðeins að ræða. Hv. þingmenn Norðvesturkjördæmis, Ólína Þorvarðardóttir og Einar K. Guðfinnsson, ræddu áðan um að það vantaði kannski orðið meiri kvóta á ákveðin landsvæði.

Nú höfum við sem komum frá suðursvæðinu, Suðurkjördæminu, horft upp á að margt af því sem hæstv. ráðherra hefur tekið sér fyrir hendur hefur virst vera misskipting á milli landsvæða. Margt af því sem ráðherrann hefur gert hefur frá okkar bæjardyrum séð snúist um að skerða réttindi og veiðiheimildir og færa þær af suðursvæðinu og jafnvel á norðvesturhornið.

Það er svolítið sérkennilegt en áhugavert líka að ræða það ráðherravald sem við höfum sé koma fram í eiginlega öllum frumvörpum sem hafa komið frá hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra á þessu kjörtímabili. Þau eiga það öll sammerkt að í þeim er ráðherra falið gríðarlegt vald, m.a. að útbúa svæði fyrir strandveiðarnar eða í útgerðarflokkunum eins og rætt var í sambandi við veiðigjaldið og jafnvel einstakar útgerðar eða einstakar tegundir og get ég nefnt makríl, skötusel og annað í þeim dúr.

Því er áhugavert að velta því fyrir sér og spyrja hv. þingmann að því — hann hefur reyndar talað þannig — hvort við séum ekki á dálítið rangri leið með því að koma á handstýringarvaldi ráðherra, eins og hv. þm. Ólína Þorvarðardóttir kom inn á, í stað þess að Alþingi mundi setja einfaldari leikreglur með skýrari lögum sem væru ekki uppfull af öllum þessum heimildum ráðherra sem hann virðist (Forseti hringir.) geta farið með á þann hátt að nú þegar er komin togstreita á milli landshluta og landsvæða og jafnvel útgerðarflokka, (Forseti hringir.) eins og ráðherra kom inn á.