139. löggjafarþing — 138. fundur,  31. maí 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[16:37]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hygg að allir landshlutar mundu segja að það vantaði meiri aflaheimildir í dag. Ég var á opnum fundi fyrir fáeinum dögum þar sem útgerðarmenn komu og ræddu þessi mál. Þar var m.a. vakin athygli á því að þó að aflinn ykist um einn þriðja þá þyrfti ekki af þeim ástæðum að bæta við fjárfestingu í skipastólnum. Með öðrum orðum, við værum við með vannýtta fjárfestingu í sjávarútvegi sem menn gætu nýtt betur og af meiri hagkvæmni sem mundi þá skila sér í meiri framlegð sem væri þá hærri tekjustofn fyrir ríkið og mundi skila sér til ríkissjóðs í því formi.

Nú er hins vegar hættan sú að með þessu frumvarpi sé verið að fjölga skipum, auka fjárfestingu, auka fjárbindingu sem gerir það að verkum þegar til lengdar lætur að þær tekjur sem við fáum af veiðigjaldinu munu ekki aukast.

Varðandi það sem sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra hefur verið að gera vil ég segja að það blasir við varðandi strandveiðarnar að hann er að handstýra veiðunum frá norðvesturhorni landsins, Snæfellsnesi og Vestfjörðum, sem hefur ekki bara áhrif á tekjur sjómanna, eða útgerðarmanna í strandveiðum heldur líka beinlínis á tekjur sveitarfélaganna vegna þess að af strandveiðunum er greitt tiltekið gjald sem síðan er ráðstafað til sveitarfélaganna á grundvelli landaðs afla. Þetta er mjög alvarlegur hlutur.

Ég er auðvitað sammála hv. þingmanni um að eðlilegast sé að hafa um þetta almennar leikreglur. Ég skal játa að ég var stór þátttakandi í því að taka pólitíska ákvörðun um að færa mikinn veiðirétt frá stærri skipum til hinna minni. Það gerðum við m.a. í byggðalegum tilgangi til að tryggja að minni byggðirnar nytu veiðiréttarins með betra móti. Það hefur sýnt sig að það kerfi er hagkvæmt. Það hefur að vísu orðið samþjöppun (Forseti hringir.) en um leið hefur dregið úr tilkostnaði og er þessi veiðiflokkur mjög mikilvægur fyrir margar byggðir landsins.