139. löggjafarþing — 138. fundur,  31. maí 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[16:39]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Við erum að ræða sjávarútvegsmál og VG-frumvarpið í frumvarpaflokki ríkisstjórnarinnar. Það virðist vera illa geymt leyndarmál að þetta frumvarp sé óskabarn Vinstri grænna en hitt frumvarpið óskabarn Samfylkingarinnar. Samstaðan í ríkisstjórninni er slík að þeim þykir best að gera þetta með þessum hætti, allir fá þá eitthvað fallegt, VG fær þetta frumvarp og Samfylkingin hitt. Það á að keyra frumvarp um grundvallarbreytingar á fiskveiðistjórnarfyrirkomulagi okkar hratt í gegnum þingið ef vilji meiri hlutans nær fram að ganga. Einhver sagði að það væri í anda ríkisstjórnarinnar þar sem fiskveiðistjórnarkerfið væri í þokkalega góðu lagi en flest annað sem ríkisstjórnin hefur komið að er það ekki þannig að gæta þyrfti samræmis og koma því í sama horf.

Hvað sem því líður, virðulegi forseti, er um að ræða grafalvarlegt mál. Ég er ekki viss um að fólk átti sig á því hvað stendur í þessu frumvarpi og hvað menn ætla sér með því.

Fyrst vil ég byrja á því að vekja athygli tilheyrenda á frétt sem var að birtast kl. 4 á Vísi . Þar er vitnað í seðlabankastjóra og fyrirsögnin er: „Breytingar á kvótakerfinu gætu veikt bankana.“ Þar fer seðlabankastjórinn yfir skýrslu á vegum Seðlabankans og segir að útlán viðskiptabankanna nemi um 1.700 milljörðum kr. en stærstur hluti eigna þeirra sé útlán. Samkvæmt skýrslunni námu lán viðskiptabankanna til fyrirtækja 56% af heildarútlánum á síðasta ári, 25% voru til heimila og 5% til erlendra aðila. Í þessari skýrslu tekur Seðlabankinn það fram að hugsanlegar breytingar á fiskveiðistjórnarkerfinu gætu veikt sjávarútvegsfyrirtæki og þar með rýrt verðgildi viðskiptabankanna. Þetta kemur okkur sem erum í hv. viðskiptanefndar ekkert á óvart, enda var það hvorki meira né minna en fyrrverandi bankastjóri Landsbankans, Ásmundur Stefánsson, sem lýsti því yfir á fundi með viðskiptanefnd að Landsbankinn, ríkisbankinn, mundi ekki þola það ef fyrningarleið ríkisstjórnarinnar væri farin. Hann fullyrti að Landsbankinn mundi ekki þola það. Nú kynni einhver að spyrja: Skiptir það einhverju máli? Er það mál sem á að taka upp á þessum vettvangi? Ég vil vekja athygli á þessu af því tilefni að þetta er ríkisbanki á ábyrgð skattgreiðenda og áföll sem bankinn verður fyrir koma beint niður á skattgreiðendum.

Hvort sem okkur líkar betur eða verr kemur sjávarútvegur öllum Íslendingum við. Í flestum þeim löndum sem við berum okkur saman við er því öfugt farið. Í Evrópuríkjum sem við eigum hvað mest samskipti við, meira að segja annars staðar á Norðurlöndunum, í það minnsta í Svíþjóð, Finnlandi og jafnvel Danmörku, er sjávarútvegur tiltölulega lítið mál og oftar en ekki litið á hann sem byggðamál og tekið á honum út frá því. Jafnvel í Noregi, þó að sjávarútvegur sé auðvitað miklu meiri þar en t.d. í Svíþjóð, er byggðatengingin mjög sterk og ekki litið á þennan atvinnuveg með sama hætti og á Íslandi. En við þurfum að byggja afkomu okkar að stórum hluta á atvinnugreininni.

Það er áhugavert, virðulegi forseti, að lesa erlend tímarit og bækur um íslenskan sjávarútveg. Ég las t.d. mér til skemmtunar bók um þorskinn sem er stútfull af fróðleik. Í henni var fullyrt að Ísland væri eina landið í heiminum sem lifði af sjávarútvegi. Öll önnur ríki væru með það fyrirkomulag að skattgreiðendur borguðu með sjávarútveginum. Þetta er stórmerkilegt og stórmál. Það er auðvitað ástæðan fyrir því að meira að segja sjálft Evrópusambandið, sem er í guðatölu hjá sumum hv. þingmönnum, lítur til Íslands þegar kemur að sjávarútvegsmálum og veltir því fyrir sér hvernig Íslendingar fari að því að greiða ekki með sjávarútveginum heldur skapa sér tekjur af honum. Menn þekkja það að sumir æstir Evrópusinnar hafa jafnvel haldið því fram með mikilli gleði að Evrópusambandið ætli að taka upp sjávarútvegsstefnu Íslands. Þá er náttúrlega ekki seinna vænna fyrir þá sömu æstu Evrópusinna að breyta sjávarútvegskerfinu, ef þeir ná sínu fram, og þá kannski í átt sem er ekkert ósvipuð því sem er hjá Evrópusambandinu, en sjávarútvegsstefna Evrópusambandsins er þess eðlis að ég held að hún eigi sér enga formælendur. Ég held að enginn sé tilbúinn að verja þá stefnu.

Þetta er ekkert sjálfgefið, virðulegi forseti. Við höfum oft tekist á um sjávarútvegsmál á Íslandi. Það er ekki nýtt. Þetta er áratuga gamalt mál. Ég hef gaman af að lesa sögu og í henni sér maður alls staðar að tekist hefur verið á um sjávarútvegsmál í íslenskri pólitík. Tekist hefur verið á um sjávarútvegsmál frá því að ég man eftir mér, og byrjaði ég mjög ungur að fylgjast með stjórnmálum, og á ég ekki von á að nein breyting verði þar á. Stóri munurinn núna frá því sem var er að atvinnugreinin hefur verið tiltölulega arðbær. Áður fyrr var sú staða sannarlega ekki uppi. Það er ekkert ofsalega langt síðan menn voru með allra handa pólitísk afskipti til að koma í veg fyrir það sem þeir kölluðu offjárfestingu í sjávarútvegi og það er heldur ekkert rosalega langt síðan fiskverkafólkið varð atvinnulaust eða sent heim með litlum fyrirvara sökum þess að búið var að veiða upp í það sem lagt var upp með og það miklu fyrr en menn gerðu ráð fyrir. Með þessu frumvarpi erum við að fara sömu leið og áður, þ.e. að auka afskipti stjórnmálamanna af greininni.

Hér hefur verið farið ágætlega í það hvernig vald ráðherra verður aukið. Ég er ekki viss um það, virðulegi forseti, hvort menn átti sig á því hvað felst í 3. gr. Þar segir í athugasemd með lagafrumvarpinu á bls. 7, með leyfi forseta:

„Samkvæmt því er það sveitarstjórn sem úthlutar aflaheimildum til fiskiskipa, með sérstakri 100% framsalsheimild, en þau skilyrði eru sett að þau eigi heimahöfn á viðkomandi stað, útgerð eigi þar heimilisfesti og aflanum sé landað þar til vinnslu.“

Seinna segir, með leyfi forseta:

„Þetta fyrirkomulag gefur sveitarstjórnum ákveðið svigrúm til að stuðla að framgangi ýmissa atriða eins og nýliðunar í greininni og stuðnings við kvótalitlar útgerðir eða ákveðinna veiðiaðferða og útgerðarflokka, t.d. línu- og handfæraveiða. Þá gefst einnig sá möguleiki að sveitarstjórnir veiti aflaheimildir til úrlausna ákveðinna vandamála, sem kunna að felast í meðafla við ákveðnar veiðar, svo sem við grásleppuveiðar.“

Hér segir líka:

„Gert er ráð fyrir að sveitarstjórnir birti tillögur sínar um úthlutun með aðgengilegum hætti fyrir almenning, t.d. á vefsíðu viðkomandi sveitarstjórnar, a.m.k. sjö dögum áður en tillagan er tekin til formlegar samþykktar á fundi sveitarstjórnar. Að samþykkt lokinni skulu úthlutunarreglur svo birtar með formlegum hætti í B-deild Stjórnartíðinda .“

Ég er ekki viss um að fólk sé búið að átta sig á því hvað þetta þýðir. Ég veit ekki hvernig það hefði verið ef þetta hefði verið í gildi þegar ég og hv. þm. Helgi Hjörvar vorum í borgarstjórn Reykjavíkur. Það hefði verið fróðlegt að sjá borgarstjórn Reykjavíkur ræða úthlutun aflaheimilda. Það er það sem lagt er upp með. (Gripið fram í.) Ég hef velt því fyrir mér hvort Dagur B. Eggertsson borgarfulltrúi muni stýra úthlutun aflaheimilda hjá borgarstjórn Reykjavíkur, eða verður það Einar Örn Benediktsson? Ég veit ekki hver fer yfir úthlutun aflaheimilda ef þessi lög ná fram að ganga. Látum vera þó að fjör verði í Reykjavíkurborg á þeim vettvangi þegar menn leggja í þá vegferð, en eru menn búnir að hugsa það alla leið hvaða áhrif þetta mun hafa á litlu svæðin? Halda menn að það verði hafið yfir gagnrýni hvernig menn skipta aflaheimildum þegar þetta verður sett á vettvang sveitarstjórna? Það er alveg ljóst í þeim byggðarlögum sem eiga sannarlega mjög mikið undir að menn munu vita upp á hár hvað hver einasta regla sem sett verður fram þýðir fyrir þá einstaklinga sem stunda útgerð.

Það er af mörgu að taka í þessu frumvarpi. En eru forustumenn stjórnarliðsins virkilega fylgjandi því? Ætla þeir núna að færa inn á vettvang sveitarstjórna að úthluta aflaheimildum? Ég hvet menn til að hugsa þennan þátt og ég veit að tveir hv. stjórnarþingmenn ætluðu að fara í andsvör við mig og ég hlakka til að fara yfir þetta með þeim. Það væri gaman að heyra hver þeirra sjónarmið eru hvað þetta varðar því að mér finnst þetta hafa farið furðulágt í umræðunni.