139. löggjafarþing — 138. fundur,  31. maí 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[16:59]
Horfa

Ólína Þorvarðardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Stundum fallast manni hendur vegna þess að það er greinilega himinn og haf á milli sjónarmiða í þessu máli eins og það leggur sig. Hv. þingmaður nefndi hér veiðar Norðmanna. Ég er nú hrædd um að þeim brygði í brún ef einhverjum dytti í hug að takmarka rétt manna til strandveiða á þeim slóðum, því að þar held ég að það sé beinlínis álitinn frumbyggjaréttur, sem á einnig við hér á Íslandi þar sem þessi atvinnugrein raunverulega byggðist upp, byrjaði auðvitað sem útvegur strandveiðimanna frá minni verstöðvum hér á öldum áður.

Hv. þingmaður talar um það sem grafalvarlegt mál að menn skuli vera að ræða þetta strandveiðifrumvarp og að auka svo verulega í strandveiðarnar sem frumvarpið gerir ráð fyrir. Ég vil enn og aftur minna á skýrsluna sem gerð var um áhrif strandveiðanna á sjávarbyggðir landsins fyrsta sumarið sem strandveiðarnar voru gefnar frjálsar, 2009, þar sem sýnt var fram á gríðarlega jákvæð samfélagsleg áhrif af þessum veiðum og voru þó ekki nema 4 þús. tonn til skiptanna þá. Nú er verið að tala um að gefa gott betur í. Það er því hálfnöturlegt að hlusta á þingmanninn tala um það sem grafalvarlegt mál að bæta atvinnumöguleika á landsbyggðinni og gæða hafnirnar lífi á ný eins og þessi skýrsla sýndi fram á að gerðist.

Þingmaðurinn spyr líka: Verða menn ekki að sætta sig við það að við takmörkum veiðar? Það er bara alls ekki sama hvernig það er gert. Auðvitað erum við að skapa okkur umgjörð og lagaramma í samfélaginu utan um allt mögulegt en það er ekki sama hvernig það er gert. Ef hægt er að benda á einhvern einn þátt sem hefur orðið fyrir verulegri röskun af því fyrirkomulagi sem við höfum haft í fiskveiðistjórn undanfarna tvo áratugi eru það smærri sjávarbyggðir landsins.