139. löggjafarþing — 138. fundur,  31. maí 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[17:02]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta var svona dæmigerð áróðursræða frá hv. þingmanni að kenna sjávarútvegskerfinu um allt sem miður hefur farið úti á landsbyggðinni. Ég hvet hv. þingmann til að kynna sér hver þróunin hefur verið í atvinnuvegum landsmanna á undanförnum áratugum. Hefur orðið eitthvað minni fækkun í frumatvinnugreinunum eins og landbúnaði og úrvinnslu landbúnaðarafurða? Hefur orðið eitthvað minni fækkun þar? Er það kvótakerfinu í sjávarútvegi að kenna? Ég sé að hv. þingmaður er hugsi og veit bara ekkert um hvað er verið að ræða.

Í örstuttu máli er þetta svona, virðulegi forseti: Það hefur fækkað mjög í frumatvinnugreinum á Íslandi. Hvar eru frumatvinnugreinarnar? Jú, þær eru á landsbyggðinni. Það hefur fækkað í landbúnaði og sjávarútvegi. Þegar ég var strákur fóru krakkar í sveit til að vinna. Slíkt er ekki í boði lengur. Þá unnu mun fleiri við landbúnað. Við unnum í sláturhúsinu í Borgarnesi. Sú staða er ekki uppi lengur. Það er ekki kvótakerfinu í sjávarútveginum að kenna. Á nákvæmlega sama hátt hafa orðið örar tæknibreytingar í sjávarútvegi og það skiptir engu máli hvaða fyrirkomulag menn eru með í fiskveiðistjórn, færri starfa við hann en áður og það hefur ekkert með fiskveiðistjórnarkerfið að gera, ekki neitt. En svo sannarlega hefur ýmislegt í fiskveiðistjórnarkerfinu gert það að verkum að það hefur verið fjárfest í sjávarútvegi úti um landsbyggðina, reyndar er það nú þannig að þvert á margt sem hefur verið að gerast í þjóðfélaginu hefur þróunin frekar verið í þá áttina að sjávarútvegurinn hefur farið út á land en á höfuðborgarsvæðið. Menn þurfa að taka það inn í dæmið.

Ég sat í sjávarútvegsnefnd fyrir ekki svo mörgum árum þar sem menn tókust á um strandveiðar (Forseti hringir.) og sóknarmark og við getum farið betur í það í seinna andsvari.