139. löggjafarþing — 138. fundur,  31. maí 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[17:09]
Horfa

Ólöf Nordal (S):

Virðulegi forseti. Það er nauðsynlegt að fara aðeins yfir hvernig nálgast skuli fiskveiðistjórnarkerfið í umræðu um sjávarútvegsmál og það mál sem er til umræðu áður en ég fer að ræða það eitthvað sérstaklega. Ég orða það kannski enn þá víðara: Hvernig er best að líta á málið og hvaða þýðingu hafa fiskveiðar fyrir Íslendinga og íslenskan efnahag? Ég held nefnilega að í öllum umræðum um sjávarútvegsmál á Íslandi og raunar hjá þeim löndum þar sem auðlindanýting skiptir jafnmiklu máli í hagkerfinu, verðum við fyrst að spyrja okkur: Hverju viljum við ná fram með fiskveiðunum? Hversu miklu máli skipta fiskveiðarnar og hverju við viljum ná fram sem þjóðfélag með veiðunum?

Þetta hefur verið spurning sem við höfum verið að velta fyrir okkur og reynt að svara um áratugaskeið. Það er kannski rótin að því fiskveiðistjórnarkerfi sem hér er nú til umræðu og hugsanlegar breytingar á því að þegar þessu tiltekna kerfi var komið á voru menn í ákveðinni neyð hér með það kerfi sem þá var og var verið að reyna að skapa betri efnahagslegan grundvöll til fiskveiða komandi ára. Í mínum huga njóta þeir sem búa í landinu þess að skynsamlegar veiðar eru stundaðar við Íslandsstrendur. Þegar veiðar við Ísland hafa gengið vel, þegar fiskveiðifyrirtækjunum gengur vel og þegar skynsamleg nýting hefur verið á sjávarútvegsauðlindinni, hefur okkur líka vegnað vel sem þjóð. Ég held að það sé mikilvægt að hugsa um það líka þegar rætt er um hvernig breyta eigi kerfinu og hverju þurfi að breyta þar.

Við höfum tekist á um sjávarútvegsmál og vandinn er sá að hér er að vissu leyti um að ræða takmarkaða auðlind af því við þurfum að gæta vel að henni svo við förum ekki út í ofveiðar. Það er því augljóst að það þarf að vera eitthvert skipulag á veiðunum en þá geta ekki allir veitt. Um það erum við líka sammála, að ég tel.

Þess vegna er ekkert skrýtið, og það eru engin ný sannindi, að um þessa auðlindanýtingu hafa jafnan verið töluvert miklar deilur og skiptar skoðanir um hvernig best verði á málum haldið. Allt frá því að þessu kvótakerfi var komið á og síðustu umtalsverðu breytingarnar voru gerðar á því hefur ítrekað verið reynt að leita sátta og samkomulags um hvernig þróa skuli kerfið áfram. Þá held ég að það sé afar mikilvægt að við lítum til auðlindanýtingar í heild, ekki bara sjávarútvegsauðlindarinnar heldur líka orkuauðlindanna og annarra þeirra auðlinda sem eru undirstaða fyrir okkur á Íslandi. (Gripið fram í.) Ég vil alltaf nálgast þetta mál þannig að hag okkar sem þjóðar sé sem best borgið.

Hv. þm. Ólína Þorvarðardóttir sagði í andsvari við hv. þm. Guðlaug Þór Þórðarson þegar ég gekk í salinn áðan — ég viðurkenni að ég heyrði ekki alveg ræðuna í heild sinni en hún sagði eitthvað á þá leið að það væri erfitt að eiga við þetta mál af því að það væru himinn og haf á milli þess sem mönnum þætti um það. Það getur vel verið að svo sé og ég hygg að á margan hátt séu mjög skiptar skoðanir um hvernig best verði á málum haldið. Ég vil hins vegar trúa því að sáttin byggi á sameiginlegri sýn okkar. Ég tel að það sé leiðin til að treysta efnahag Íslendinga og á því byggjast rökin sem ég færi fyrir máli mínu, sú hugsun sem ég byggi skoðanir mínar á. Menn geta síðan haft aðrar skoðanir. Ég vil þá fá rök fyrir því.

Þegar við ræðum þetta frumvarp — ég ætla nú ekki að fara að tala um hitt frumvarpið, en það á reyndar það sama við um það þegar kemur að greinargerðinni — finnst mér ekki vera farið mikið yfir hverju nákvæmlega þessar breytingar eiga að ná fram og hvers vegna. Hvað vilja menn nákvæmlega fá fram með þessum breytingum?

Við getum farið yfir það sem ég nefndi áðan um auðlindirnar í heild sinni. Ég get kemst ekki hjá því að nefna niðurstöður auðlindanefndarinnar árið 2000. Ég get líka nefnt fleiri nefndir sem hafa verið að störfum þar sem menn hafa litið sérstaklega til þess hvort hægt væri að ná sátt eða samkomulagi t.d. um að einhvers konar þjóðareignarákvæði séu sett í stjórnarskrá. Það var reyndar svo í tvígang í ríkisstjórnum sem Sjálfstæðisflokkurinn átti aðild að, að það var í stjórnarsáttmála að slík ákvæði skyldu koma fyrir í stjórnarskrá. Það geta verið margvíslegar ástæður fyrir því að það náðist ekki fram en það merkir hins vegar ekki að slíku sé ekki hægt að ná fram. Ég get sagt fyrir mitt leyti, og það eru engin ný tíðindi, ég lengi hef verið þeirrar skoðunar, að hægt sé að setja slíkt ákvæði í stjórnarskrá.

Í niðurstöðu auðlindanefndarinnar á sínum tíma var í raun sett undirstaða veiðigjaldsins sem við höfum verið með undanfarin ár. Þeir stjórnmálamenn sem þá sátu í þessum sal töldu í því fælist tiltekin sátt. Við vitum þó að sú sátt hefur ekki enn náðst. Það verður alltaf kúnst að ná varanlegri sátt um það efni sem hér er til umræðu. Þá var líka talað um auðlindagjald vegna annarrar auðlindanýtingar.

Nú hefur það gerst frá því að veiðigjaldið var sett á að við ákváðum að hafa langan nýtingartíma á orkuauðlindunum. Það var gert haustið 2007 eða 2008, ég man ekki í svipinn hvort árið það var. Ég sé að nú er í þinginu frumvarp um að stytta þann tíma. Í allri þeirri hugsun finnst mér mjög brýnt að muna að það þarf að vera tiltekin langtímahugsun í allri auðlindanýtingu vegna þeirra fjárfestinga sem undir eru.

Mér finnst líka skipta máli þegar við tölum um fiskveiðistjórnarmálin að það verður að vera langtímahugsun fyrir hendi um það hverju við ætlum okkur að ná fram með því kerfi sem við setjum á. Hvað er það sem við viljum fá út úr þessu? Hvað er það sem okkur finnst skipta mestu máli? Er það ekki að veiðarnar séu skynsamlegar? Er það ekki að ekki sé farið of hart í stofnana? Er það ekki að endurgjaldið til þjóðarinnar í formi alls kyns skatta og gjalda sem slíkar atvinnugreinar skila muni síðan skila sér í betri afkomu fyrir þjóðina í heild, hverja einustu fjölskyldu í landinu? Eru hin heildstæðu áhrif af allri slíkri nýtingu ekki lokamarkmið okkar þegar við skoðum fiskveiðistjórnarkerfið og önnur auðlindanýtingarkerfi? Það hlýtur að vera sú langtímahugsun, sú heildarhugsun, sem við þurfum að leggja til grundvallar þegar við förum yfir þessi mál.

Ég sagði á einhverju stigi í gær að við færum dálítið bratt inn í þetta núna. Það vantar að ræða grunninn, finnst mér. Það kann að vera að það hafi verið gert í þeim nefndum ríkisstjórnarflokkanna sem störfuðu í vetur. Það hefur hins vegar ekki verið gert á vettvangi þingsins um langan tíma. Langtímahugsunin um hverju kerfið á að skila okkur verður að vera útgangspunktur fyrir það hvernig við byggjum þetta kerfi upp. Við hljótum að vera sammála um það.

Ég vil síðan nota síðustu mínúturnar í þessari ræðu til að tala aðeins um umsögn fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytisins þegar kemur að þessu tiltekna frumvarpi. Ég get ekki látið hjá líða að segja að það er alveg makalaust að lesa álit fjárlagaskrifstofunnar. Það vekur verulega undrun hversu lítil umsögn er í raun um þær breytingar sem lagðar eru til. Það á líka við um hitt frumvarpið, þ.e. hvaða áhrif málið hafi í heild sinni. Þá er ég líka að hugsa til langtímaáhrifanna. Reyndar er boðað að niðurstaða hagfræðinganefndar komi en hún hefur ekki enn komið fram. Ég hygg reyndar að það hefði verið hyggilegra að fá hana áður en frumvarpið var lagt fram á þinginu þannig að menn hefðu það fyrir framan sig hvernig vísustu hagfræðingar okkar sjá fyrir sér afleiðingar á breytingum á því kerfi sem er við lýði.

Hitt er annað mál að í þeirri umsögn eru fyrst og fremst verulegar athugasemdir af hálfu fjármálaráðherra við það hvernig veiðileyfagjaldinu er útdeilt. Það vekur athygli að slík umsögn komi frá fjármálaráðuneytinu í stjórnarfrumvarp og að það skyldi ekki vera tekið á álitaefnum fjárlagaskrifstofunnar áður en málið var lagt fram í þinginu af því þau eru dálítið stór þau álitamál. Málin eru tilbúin þegar þau fara til þingflokkanna. Mér finnst menn ganga ansi nærri því í þessari umsögn að segja að verið sé að brjóta hér jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar.

Nú komum við að mjög viðkvæmu máli. Það er einmitt hvernig fara á með skatttekjur af þessu tagi. Ég hef þá skoðun þegar kemur að skattstofnum ríkisins að þeir eigi að renna í ríkissjóð. Það er skoðun mín almennt að það sé rétt. Hugmyndin um sértekjur eða þegar menn fara með hlutina fram hjá sameiginlegu ákvörðunarvaldi í þinginu finnst mér almennt séð ekki horfa til neinna bóta. Það kann þó að vera rótin að því að menn eru að koma fram með þessar hugmyndir. Mér finnst dálítið einkennilegt hvernig og hverjir það eru og hvernig þessu öllu saman er útdeilt. Ég ætla ekki að fara í þá umræðu. Ég geri ráð fyrir því að málið fari í nefnd og að menn muni skoða það mjög vel, en ég ætla ekki að ræða það frekar.

Ég ætla miklu frekar að segja hvernig við nálgumst þær byggðir og aðila úti um landið sem berjast í bökkum af ýmsum ástæðum. Ég þekki það vel úr mínu gamla kjördæmi að mönnum finnst að fátt hafi verið um efndir þegar kemur að því að koma til móts við þá sem búa í hinum dreifðu byggðum og hafa orðið fyrir skakkaföllum af ýmsum ástæðum. Ég hygg að það sé nokkuð sem við þurfum að taka alvarlega.

Ég er ekki ein af þeim sem telja að það sé best að allir flytji til Reykjavíkur. Ég er einmitt ein af þeim sem vilja sjá blómlega byggð sem víðast um landið. Ég geri mér grein fyrir því að í sumum tilvikum eru erfiðar aðstæður. Hvernig ætlum við að nálgast það viðfangsefni? Ætlum við að færa valdið, eins og gert er með þessu frumvarpi og reyndar líka í hinu frumvarpinu, til pólitísks ráðherra, alveg sama úr hvaða flokki hann er? Mér hugnast afar illa að svona mikið vald sé sett á herðar einum tilteknum stjórnmálamanni til að véla um hvernig fara skuli með grundvallarhluti í landinu okkar. Mér finnst gríðarlegt framsal til ráðherra felast í þessu frumvarpi. Þess vegna finnst mér mjög brýnt að menn skoði það mjög rækilega.

Ég endurtek: Það vekur furðu mína að þessi álitamál, sérstaklega þegar kemur að álitamálum gagnvart stjórnarskránni — það á ekki að koma neinum á óvart að á þeim sé imprað. Það er það fyrsta sem manni dettur í hug þegar fara á svona með skattstofna. Það kemur mér mjög mikið á óvart að það hafi ekki verið skoðað sérstaklega fyrir fram eða farið sérstaklega yfir það. Ég vonast til — ég sé að hér situr formaður sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar og varaformaður einnig — að það sé eitt af því sem sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd fari sérstaklega yfir þegar kemur að því að fara yfir þetta mál og skoði hvort hægt sé með þessum útdeilingum úr ríkissjóði að gera hlutina með öðrum hætti.

Hvernig það kemur stjórnarskrá Íslands við er nokkuð sem við þurfum að taka mjög alvarlega og þeir sem lögðu málið fram þurfa auðvitað að svara því. Þeirri spurningu hefur að sjálfsögðu verið varpað til hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. Mér þóttu svörin reyndar ekki vera nógu ítarleg hvað það varðar en ég vonast svo sannarlega til að hv. nefndarmenn í sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd skoði það mjög vel. Það væri líka dálítið áhugavert að menn færu út í þá vinnu á vegum þingsins að skoða hvað við viljum fá út úr fiskveiðistjórnarkerfinu, alveg sama hvaða kerfi. Menn þurfa alltaf að velta fyrir sér: Hvert er lokamarkmiðið með því að setja slíkt kerfi á? Er það ekki að heildarhagsmunum sé vel borgið? Er það ekki að sameiginlegir hagsmunir okkar af nýtingu auðlindarinnar verði til hagsbóta fyrir hverja manneskju í landinu? Er það ekki í raun og veru það sem við viljum fá út úr slíku kerfi? Hefur þetta kerfi ekki skilað okkur þeim árangri?

Hér hefur verið því haldið fram að við séum á móti öllum breytingum á kerfinu. Ég segi: Við skulum (Forseti hringir.) þá gera þannig breytingar að við þróum hlutina til betri vegar þannig að heildarhagsmunir séu enn þá betur tryggðir en ekki fara til baka.