139. löggjafarþing — 138. fundur,  31. maí 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[17:28]
Horfa

Ólöf Nordal (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er slæmt að ég skyldi ekki hafa komið inn á það í fyrra andsvari mínu svo hv. þingmaður gæti brugðist við því en mér finnst ekki til bóta þegar menn tala um mál af þessum toga að breytingarnar felist í svona óskaplega miklum ákvörðunum sem settar eru til ráðherra. Mér finnst það ekki til bóta. Tökum sem dæmi alla þessa potta, hvernig stendur á því að þar er stöðugt verið að færa vald til ráðherra?

Menn hafa gagnrýnt að þegar sé mikið vald sett fram í þeim lögum sem nú gilda. Ég hygg reyndar að erfitt sé að komast hjá einhvers konar stýringu í kerfi sem heldur utan um takmarkaðar auðlindir, kerfið býður upp á það. En mér finnst að verið sé að stíga fleiri og fleiri skref til að færa vald til ráðherra með þessu frumvarpi. Mér finnst það mjög til vansa. Það er eitt af því sem þarf að skoða mjög rækilega hjá þeim sem bera þetta mál upp, að draga stórlega úr því.

Svo er það lokaatriðið: (Forseti hringir.) Hvað í þessum breytingum mun skila sér í auknum ábata fyrir okkur öll, fyrir alla Íslendinga?