139. löggjafarþing — 138. fundur,  31. maí 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[17:30]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Ólöfu Nordal fyrir ræðu hennar. Ég hjó eftir því að hún velti fyrir sér til hvers menn væru að fara fram með þessar breytingar og hvert markmiðið væri. Í stjórnarsáttmálanum, eða stjórnarsamstarfsyfirlýsingunni held ég að hún hafi heitið, stóð að afar mikilvægt væri að skapa greininni bestu rekstrarskilyrði sem völ væri á og treysta þannig rekstrargrundvöll til langs tíma. Einnig kom þar fram að íslenskur sjávarútvegur mundi gegna lykilhlutverki við endurreisn atvinnulífsins sem fram undan væri.

Því vil ég spyrja hv. þingmann, ekki síst í ljósi þess að margt bendir til að í frumvörpunum tveimur, hvort sem er „stóra“ eða því „litla“ sem við ræðum núna, hafi þessum sjónarmiðum öllum verið ýtt til hliðar, hvert er þá markmiðið ef fyrst og fremst á bara að vera líf í höfnum? Á að ýta til (Forseti hringir.) hliðar aukinni arðsemi? Á að ýta því til hliðar að kerfið sé sjálfbært? Á að ýta því til hliðar að kerfið (Forseti hringir.) gagnist sem flestum?