139. löggjafarþing — 138. fundur,  31. maí 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[17:35]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að í grunninn hljótum við flest að vera sammála um að mikilvægt sé að hafa fiskveiðistjórnarkerfi sem skilar sem mestum arði til samfélagsins. Okkur greinir augljóslega á um hvernig best sé að haga kerfinu. Stjórnarflokkarnir hafa talað fyrir fyrningarleið um langan tíma. Fyrningarleið er vitanlega ekkert annað en að taka atvinnuréttinn af stórum hópi Íslendinga og færa hann eitthvað annað eða færa til með nýjum skilyrðum.

Nú hefur komið í ljós að seðlabankastjóri hefur líka áhyggjur af breytingum á fiskveiðistjórnarkerfinu og að þær kunni að skaða viðskiptabankana. Mig langar að inna hv. þingmann eftir því hvort hann þekki til þessara orða seðlabankastjóra og sé hugsanlega sammála þeim. Og í ljósi orða seðlabankastjóra, ef fiskveiðistjórnarkerfinu verður breytt á þá vegu sem boðað er í frumvörpunum, telur hv. þingmaður að það (Forseti hringir.) veiki hugsanlega viðskiptabankana?