139. löggjafarþing — 138. fundur,  31. maí 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[17:44]
Horfa

Ólöf Nordal (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla að viðurkenna fyrir hv. þingmanni að ég hef engar sérstakar áhyggjur af stærstu útgerðum í landinu þegar að þessu kemur. Mér kom ekkert sérstaklega mikið á óvart að þetta öfluga útgerðarfyrirtæki, Samherji, sem er líka að sækja á miðin úti í hinum stóra heimi, væri í færum til að kaupa það félag sem hér um ræðir. Ég hef miklu meiri áhyggjur af litlu og meðalstóru útgerðunum hringinn í kringum landið. Ég hef miklu meiri áhyggjur af þeim fyrirtækjum sem eru hryggjarstykkið í öllu atvinnulífi á Íslandi. Þar liggja mínar áhyggjur. Ég hef miklu minni áhyggjur af þeim sem halda á mesta kvótanum af því í flestum tilvikum þegar um stærstu útgerðirnar er að ræða, ef efnahagur þeirra er öflugur og með allt öðrum hætti en hjá minni útgerðum, eru þær í betri aðstöðu til að mæta þessum breytingum.

Ég hygg hins vegar að forsvarsmenn Samherja, ég ætla svo sem ekki að tala fyrir þá, hafi kannski ekki trú á því að meiningin sé að koma þannig fram sem mundi koma svo illa við litlu og meðalstóru útgerðirnar í landinu. Ég held að menn (Forseti hringir.) hafi ekki trú á því, virðulegi forseti.