139. löggjafarþing — 138. fundur,  31. maí 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[18:26]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tók einmitt eftir þeirri frétt um skýrslu seðlabankastjóra, sem ég hef reyndar ekki kynnt mér nægilega vel. Í fréttinni er vissulega fjallað um það að seðlabankastjóri óttist að fyrirhugaðar breytingar á fiskveiðistjórnarkerfinu — það er svo sem ekkert sundurliðað hvort þetta frumvarp sem við fjöllum um nú eða hið stærra muni veikja útgerðarfyrirtækin eða þau sem starfa í þessari grein með þeim afleiðingum að þau geti ekki greitt það gjald í bankann sem þau sannarlega gera í dag. Það er auðvitað þannig að ef útgerðarfyrirtækin væru ekki að greiða þessa 20–30 milljarða, sem þau greiða inn í bankakerfið í dag, ættum við kannski að spyrja okkur: Hver væri þá að því? Það er því alveg ljóst að verið er að endurreisa bankakerfið að einhverju leyti með því að (Forseti hringir.) það sé svona öflug atvinnugrein í landinu sem getur greitt af lánum sínum, bæði vexti og afborganir.