139. löggjafarþing — 138. fundur,  31. maí 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[18:37]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er vel til fallið hjá hv. þm. Írisi Róbertsdóttur að lesa ályktun framsóknarmanna því að mér heyrist að þetta sé heitasta efnið, enda ákaflega skynsamlegt plagg.

Varðandi nýsköpunina, þegar talað er annars vegar um meðaflareglur, þá erum við að tala um að rýmka þær reglur. Það er óhjákvæmilegt að á meðan þeir sem eru til að mynda að fara að gera út á tegundir sem eru vannýttar eða ónýttar í dag og eru að læra á sitthvað líffræðilegt, veiðisvæði og slíkt, veiði aðrar tegundir samhliða. Þetta er til þess hugsað að menn gerðu þetta á löglegan hátt og hins vegar væru þessar meðaflareglur auðvitað stuðningur út af fyrir sig ef menn fengju úthlutað slíkum heimildum.

Varðandi beinan fjárstuðning þá var einmitt hugsað til þess sem veiðigjaldið mundi skila til viðkomandi svæðis, að hluti af veiðigjaldinu (Forseti hringir.) færi beint til greinarinnar sjálfrar. Þarna var það hugsað að sá hluti þess færi til nýsköpunar.