139. löggjafarþing — 138. fundur,  31. maí 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[18:40]
Horfa

Jón Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Samkvæmt þessu frumvarpi og reyndar báðum frumvörpunum sem hér liggja fyrir og eru rædd svolítið í samhengi munu aflaheimildir verða auknar. Nú er það svo að margir hafa fjárfest í aflaheimildum á undanförnum árum og því hafa fylgt miklar skuldsetningar, sérstaklega á það við um lítil og meðalstór fjölskyldufyrirtæki um allt land.

Mig langar að spyrja hv. þm. Sigurð Inga Jóhannsson hver hans skoðun er á þessu. Þessir aðilar hafa hlotið miklar skerðingar og nú er að koma aflaaukning, þeir fá ekki þessa aukningu til sín en sitja eftir með skuldirnar. Hver er skoðun hans á stöðu þessa fólks, þeirra þúsunda manna sem hér um ræðir, er ríkið mögulega að baka sér skaðabótaskyldu miðað við það að þetta fólk hefur ekki gert annað en spila eftir þeim leikreglum sem Alþingi hefur sett því?