139. löggjafarþing — 138. fundur,  31. maí 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[18:41]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Auðvitað hlýtur það að koma upp í hugann hjá þeim aðilum sem hafa orðið fyrir þeirri aflaskerðingu á síðustu árum, höfðu keypt kvóta í góðri trú og síðan var hann skorinn verulega niður, þeir hljóta að velta fyrir sér með hvernig þeir geti sótt sinn rétt, en hvort skaðabætur koma þar til greina veit ég ekki.

Ég held að það sé grundvallaratriði í þessari kerfisbreytingu ef menn ætla að fara að auka þær tilfærslur sem eru í greininni í dag, ég held að þær séu um 3,5% af þorskígildi í dag, að ef menn ætla að fara með þær í kannski 15% á örfáum árum verði það gert samhliða því að það verði veruleg stofnstærðaraukning þannig að ekki sé verið að taka af þeim sem núna eru í greininni og hafa orðið fyrir 30% skerðingu eða jafnvel meira, þeir eiga auðvitað að fá sína eðlilegu hlutdeild í aukningunni eins og hinir. Og þegar við höfum síðan komist að samkomulagi um að þetta sé skynsamlegt — og nú er ég ekki að nefna 15%, við gætum verið að tala um einhverja allt aðra tölu, 5%, 6%, 7 eða 8% — mundi aukningin halda áfram hlutfallslega milli þessara potta. Það var í sáttatillögunum, held ég.