139. löggjafarþing — 138. fundur,  31. maí 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[20:17]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Helga Hjörvar fyrir þessar spurningar. Þannig er mál með vexti að alls staðar þar sem er takmörkuð auðlind verður að byggja á einkaleyfi til að menn kalli ekki fram sorgarsögu almenninganna. Þetta er, fyrir þá sem hafa þekkingu á auðlindahagfræði, ein af grunnsetningum auðlindahagfræðinnar og það skiptir engu máli hvers konar auðlindanýting það er.

Annar misskilningur hjá hv. þingmanni er sá að ekki er um það að ræða að verið sé að greiða auðlindarentu. Það sem gerist þegar hagkvæm nýting auðlinda kemst á er að til verður auðlindarenta. Auðlindarenta er nokkurs konar umframhagnaður, þ.e. hefðbundinn hagnaður að viðbættum hagnaði sem verður við það að einkaleyfi er til. Og að ná fram auðlindarentu á þann hátt sem ég hef lýst hér er akkúrat markaðslausn. Þetta er einfaldlega hornsteinninn í auðlindahagfræðinni og auðlindafræðinni. Þetta er ekki eitthvað sem var búið til heima á Neskaupstað, heldur er fræðilega viðurkennt að svona verður hún til.

Um margt hef ég verið sakaður en ég hef aldrei verið sakaður um það áður að vera ekki maður markaðslausna og markaðssinni. (BJJ: Þar kom að því.) Þannig að þar kom að því, eins og hv. þm. Birkir Jón Jónsson segir, en á (Forseti hringir.) dauða mínum átti ég von en ekki þessu.