139. löggjafarþing — 138. fundur,  31. maí 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[20:24]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þm. Birki Jóni Jónssyni fyrir ágæta spurningu: Hver er stefna Sjálfstæðisflokksins í sjávarútvegsmálum, hverju vill Sjálfstæðisflokkurinn breyta? Ég held að það liggi algjörlega ljóst fyrir að eitt af því sem þarf til að tryggja hagkvæmt fiskveiðistjórnarkerfi er að sátt og friður ríki um kerfið. Ég held að það sé eitt af grundvallaratriðunum til að ekki myndist óvissa hjá fyrirtækjunum um framhald kerfisins. En hér er ekki verið að bjóða upp á neina sátt, eins og við hv. þingmaður erum sammála um, hér er verið að reyna að þvinga í gegn breytingar á kerfinu sem meira að segja er óvíst að stjórnarmeirihluti sé fyrir. Svo mikil var sú sátt.

Svo ég svari spurningu þingmannsins beint. Í anda þess að skapa frið um útveginn, minnka óvissu og tryggja hagkvæmni kerfisins stóðum við sjálfstæðismenn að svokallaðri sáttaleið sem byggir á nýtingarrétti, að fyrirtæki séu með nýtingarrétt til langs tíma sem þau mundu borga fyrir einhvers konar gjald sem endurspegli auðlindarentuna. Ég held að ég geti litlu bætt við það en það var mjög skýrt að Sjálfstæðisflokkurinn stóð að því. Ég held að ég vísi bara í niðurstöðu sáttanefndarinnar sem öll hagsmunasamtökin og allar pólitísku hreyfingarnar nema Borgarahreyfingin eða Hreyfingin stóðu að.