139. löggjafarþing — 138. fundur,  31. maí 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[20:27]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Oft er látið að því liggja að þeir einu sem séu á móti þessu séu hagsmunasamtök, sem hæstv. forsætisráðherra kallar núna „líjú“ en eru samkvæmt hefð kölluð L-Í-Ú. Jafnframt er látið að því liggja og hæstv. forsætisráðherra hefur látið að því liggja að Sjálfstæðisflokkurinn sé einhvers konar armur í þessum hagsmunasamtökum. Það er fróðlegt að velta þessu fyrir sér í því samhengi að öll hagsmunasamtök, þ.e. þrenn samtök sjómanna, samtök fiskvinnsluhúsa, samtök smábátasjómanna, LÍÚ eða „líjú“, og öll samtök sem koma að þessu hafa harðlega andmælt framkomnum frumvörpum. (Forseti hringir.) Þannig að þar er sátt.