139. löggjafarþing — 138. fundur,  31. maí 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[20:31]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Björgvin Sigurðsson segir að ég dragi upp kolsvarta mynd af afleiðingum þessara frumvarpa ef þau verða að lögum. Ég held því reyndar fram að ég hafi ekki dregið upp nægilega svarta mynd. Þingmaðurinn segir að hérna sé byggt á þeim meginprinsippum sem voru í tillögum sáttanefndarinnar. Sáttanefndin fjallaði hvergi um að það ætti að banna framsal sem er lykill að hagræðingu í greininni. Sáttanefndin fjallaði á engan hátt um að það væri bannað að veðsetja sem er lykillinn að nýliðun í greininni. Eða hvernig ætlar hann að fara í bankann og biðja um lán út á bát og annað slíkt ef hann má ekki veðsetja hann? Það þýðir að bara auðmenn geta orðið nýliðar í greininni.

Þriðja atriðið er sólarlagið sem er 15+8 ár. Það tekur alla langtímahugsun út úr greininni á síðustu árunum. Þetta verður kannski allt í lagi fyrstu fjögur, fimm árin en á síðustu árunum tekur það alla langtímahugsun út úr greininni.

Síðan er það öll ráðstjórnin. Hvað gerir 2. gr.? Til dæmis fyrir Austfirðina þýðir 2. gr. að það þarf að loka þar tveim frystihúsum, á Seyðisfirði og Norðfirði. Það þarf að leggja togurum og annað slíkt. Það eru afleiðingarnar fyrir fólkið þar þegar þorskkvótinn flyst á Suðvesturland og Vestfirði í kjölfar þess að uppsjávarfyrirtækin þurfa að borga inn í pottana góðu.